Baugur Group hefur sett bresku tískuvörukeðjuna MK One í sölu, samkvæmt frétt á vef breska dagblaðsins The Times. Í tilkynningu frá Baugi frá því í síðustu viku kom fram að MK One væri meðal þeirra eigna félagsins sem yrðu áfram í eigu félagsins.
Rekstur MK One hefur gengið brösuglega en á síðasta ári nam tap keðjunnar 17,4 milljónum punda. Hefur orðrómur verið uppi um framtíð keðjunnar í fjármálalífi Lundúnaborgar að undanförnu, samkvæmt The Times.
Baugur keypti MK One í nóvember 2004 á 55 milljónir punda. Keðjan hefur átt í harðri samkeppni að undanförnu við verslanir eins og Primark, Peacocks og stórar verslunarkeðjur í Bretlandi. Á síðasta rekstrarári sem lauk þann 27. janúar sl. námu sölutekjur MK One 118 milljónum punda samanborið við 169 milljónir punda árið á undan. mbl.is