Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, segir við Morgunblaðið að stjórnendur MK One hafi væntanlega vegna fyrirhugaðrar sölu á tískuverslanakeðjunni ákveðið að stöðva greiðslur tímabundið til birgja, samkvæmt samningum um greiðslufrest. Hvorki Baugur né aðrir hluthafar hafi gefið einhverjar fyrirskipanir. Í breskum blöðum um helgina var fjallað um óánægju birgja vegna vanskila MK One við þá. Voru þeir sagðir ætla í innheimtuaðgerðir og í frétt Times Online er haft eftir heimildarmanni að ávísanir hafi ekki fengist innleystar í bönkum. Telur Gunnar birgjana nota sér athygli fjölmiðla í Bretlandi til að beita fyrirtækið þrýstingi.
Gunnar segir félagið ekki skipta sér af daglegum rekstri MK One, en Baugur á þar 60% hlut og ákvað nýlega að setja keðjuna í sölumeðferð. Hefur rekstur hennar ekki gengið vel en í frétt Telehgraph segir að Baugur hafi tapað 30-40 milljónum punda á þessari fjárfestingu. Keypti Baugur hlutinn í MK One árið 2004 fyrir 55 milljónir punda, um 8 milljarða króna.
Segir Gunnar sölumeðferðina ganga vel og á annan tug aðila hafi sýnt MK One áhuga. Tilboða megi vænta á næstu vikum.