Bankastjórar eru ánægðir

Bankastjórar íslensku viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, fagna allir gjaldeyrisskiptasamningum Seðlabanka Íslands við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, sem tilkynnt var um í gær.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, segist hafa talið mikilvægt að gefa Seðlabankanum vinnufrið til þess að styrkja gjaldeyrisforðann og auka aðgang að lausafé.

„Ég hef verið þess fullviss að þar væru menn að vinna að þessu mikilvæga verkefni, en svona hlutir taka eðli málsins samkvæmt tíma. Það er mjög jákvætt að Seðlabankinn hafi náð þessum áfanga og sýnir það traust sem bankinn og Ísland nýtur erlendis,“ segir Lárus, sem telur einnig mikilvægt að forsætisráðherra hafi lýst yfir að ríkisstjórnin ætli að gera umbætur á skipulagi Íbúðalánasjóðs til að bæta virkni peningamálastefnunnar.

„Seðlabankinn, ríkisstjórnin og bankarnir hafa verið og eru að vinna að lausnum. Glitnir kláraði fyrr í vikunni stóra fjármögnun í Noregi og jákvæðar fréttir sem þessar styrkja fjármálakerfið og auka trúverðugleika þess meðal erlendra aðila,“ segir Lárus Welding.

Hagkvæm leið

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, segir að gjaldeyrisskiptasamningar Seðlabankans við norrænu seðlabankana séu mjög jákvæð tíðindi. „Það að norrænu seðlabankarnir eru tilbúnir að gera þessa samninga má túlka sem stuðningsyfirlýsingu bæði við íslenskt hagkerfi og íslensk fjármálafyrirtæki.“

Hann segir að sú leið sem valin hefur verið virðist vera nokkuð hagkvæm, því hún auki ekki skuldsetningu nema hún sé nýtt. „Og eins og ráðamenn hafa talað er hún byrjun á ferli sem bankarnir hafa kallað eftir. Við höfum bent á að vöxtur fyrirtækja hér hafi verið mikill undanfarin ár en Seðlabankinn hafi hins vegar ekki verið efldur að sama skapi. Þetta svarar því kalli.“

Verulegar fjárhæðir

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, segist fagna gjaldeyrisskiptasamningum Seðlabanka Íslands og norrænu seðlabankanna eins og markaðurinn almennt virðist gera. „Það er ánægjulegt að sjá að samstarf við Norðurlöndin skilar sér sem fyrsti áfanginn í þeim aðgerðum sem nefnt var á aðalfundi Seðlabankans í lok marsmánaðar síðastliðinn að unnið yrði að.“

Halldór segir að í þessum gjaldeyrisskiptasamningum Seðlabankans við norrænu seðlabankana sé um að ræða marktækar fjárhæðir, þegar horft sé til þeirra fjárhæða sem seðlabankar hafi almennt samið um í sínu samstarfi. „Þetta eru því samningar sem sýna mikinn samstarfs- og stuðningsvilja norrænu seðlabankanna við íslenska kerfið, við þær aðstæður sem nú eru uppi,“ segir Halldór.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK