Drekahagkerfið glatar samkeppnisforskotinu

Það kann að hljóma eins og fráleit mótsögn en er engu að síður staðreynd að kínverski vinnumarkaðurinn kann að standa frammi fyrir skorti á vinnuafli, kunnuglegum fylgifiski langvarandi hagvaxtar. Um leið gætu ný lög um aðbúnað verkafólks aukið launakostnað verulega og aukið á þann kostnaðarauka sem stöðugar olíuverðshækkanir hafa haft í för með sér. Með öðrum orðum: Kínverska efnahagsundrið, sem hefur verið drifið áfram af miklum útflutningi eins og öll hagvaxtarundur Asíu, gæti verið að sigla úr skeiðinu þegar hagstætt orkuverð og ódýrt vinnuafl tryggðu því umtalsvert forskot á vestræna framleiðslu.

Vísbendingu um þetta er að finna í greiningu erlendra sérfræðinga og þeirri tilfinningu sem athafnamenn hafa fyrir þróun kínverska vinnumarkaðarins.

Stephen Moore, greinarhöfundur hjá vefútgáfu Modern Plastics, alþjóðlegs tímarits um plastiðnaðinn, víkur að þessari þróun í nýlegri grein, þar sem hann segir að kínversku héruðin inn til landsins, þaðan sem vinnuaflið hefur streymt til hafnarborganna hin síðari ár, séu byrjuð að njóta ávaxta hagsveiflunnar. Þetta þýði að hvatinn til að freista gæfunnar í borgunum sé nú minni fyrir verkamenn en verið hefur.

Ofan á þetta leggist að Kínastjórn hafi samþykkt róttækar breytingar á vinnulöggjöf í ársbyrjun, sem meðal annars kveði á um tvöfaldar yfirvinnugreiðslur fyrir vinnu umfram 48 stundir á viku og stofnun verkalýðsfélaga. Þá öðlist verkafólk réttinn til að neita því að sinna hættulegum verkefnum í trássi við reglur um öryggi á vinnustöðum.

Moore segir launakostnað í Kína nú sambærilegan við það sem hann er í mörgum Suðaustur-Asíuríkjum, á borð við hið ört vaxandi hagkerfi í Víetnam, auk þess sem skortur á vinnuafli sé farinn að hamla vissum iðngeirum í stórborginni Shanghai.

Moore vitnar í Hozumi Yoda, forseta Nissei Plastic Industrial, fyrirtækis sem framleiðir búnað til sprautusteypu á plasti, um að nýju vinnuaflslögin í Kína muni auka launakostnað um 40 af hundraði.

Sú þróun gæti reynst himnasending fyrir framleiðslu búnaðar fyrir vélræna framleiðslu, þar sem mannshöndin kemur hvergi nærri.

Svo sögunni sé vikið frá plastiðnaðinum heyrast raddir af líkum toga úr ýmsum áttum. Á vefsíðu Shanghai Daily segir að hækkandi orkuverð sé farið að hafa mikil áhrif á allan framleiðslukostnað, sem m.a. komi fram í því að hækkun verðlagsvísitölunnar í maímánuði (8,2 af hundraði) hafi verið sú mesta síðan í október 2004.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK