Fjárhagsstaða danska bankans Roskilde Bank er orðin svo slæm að bankinn hefur óskað eftir, og fengið neyðarlán frá danska seðlabankanum upp á 750 milljónir danskra króna, andvirði um 12 milljarða íslenskra króna. Ástæðan er sögð sú að bankinn muni þurfa að taka á sig stærri afskriftir vegna fasteignalána en vænst var. Í kjölfarið sagði Svenska Handelsbanken, einn stærsti banki Svíþjóðar ekki útlokað að hann myndi bjóða í danska bankann, að því er kemur fram á vef Børsen.
Annar danskur banki, Forstædernes Bank gaf í gær út afkomuviðvörun, en horfur eru á mjög lakri afkomu bankans á árinu 2008.
Danskir fjölmiðlar hafa sýnt þróun mála hér á landi mikinn áhuga og hafa gefið í skyn að hrun íslenska bankakerfisins sé á næstu grösum. Hugsanlega hefðu þeir betur litið sér nær, en bjálkinn í dönskum augum virðist vera í stærra lagi.