Enex í gíslingu eigenda sinna


„Það er engin launung yfir því að við höfum reynt hvað við getum til að leysa þennan hnút með alls konar tillögugerð,“ segir Lárus Elíasson, forstjóri Enex, um fréttir þess efnis að Merril Lynch og Kaupþing hyggist kaupa íslenska orkufyrirtækið. Lárus vill þó ekki staðfesta að ofangreindir aðilar séu að reyna að kaupa Enex en segir ljóst að eitthvað þurfi að gera.

„Eigendur Enex hafa ekki komið sér saman um hvernig eigi að reka félagið. Við höfum reynt að velta upp lausnum hér innandyra til að leysa félagið úr þeirri stöðu sem það er í. Sú staða er upp komin að starfsfólk félagsins, verkefni þess og ímynd út á við líður fyrir þennan hnút. Menn hafa verið að skoða ýmsar lausnir í málinu, eins og að fjárfestar kaupi Enex með fulltingi REI. Það hefur líka verið skoðað hvort vilji sé til að skipta félaginu upp með einhverjum hætti. En það að gera ekkert er ekki góður kostur.“

Til umræðu í stjórn REI

Ásta Þorleifsdóttir, sem situr í stjórn REI, staðfestir að staða Enex hafi lengi verið til umræðu. „Staða Enex hefur ekki verið neitt sérstaklega góð. Þar hefur allt verið í frosti, félagið hefur ekki haft neitt fjármagn og það hefur gert því erfitt fyrir að sinna þeim verkefnum sem þeir hafa haft. Þrátt fyrir mörg áhugaverð verkefni þá hefur Enex ekki skilað eigendum sínum neinum arði og þar sem það er yfirlýst stefna Orkuveitunnar að leggja ekki meira fé í útrásarverkefni þá er Enex engin undantekning frá því.“

Vildu borga með eigin bréfum

GGE á um 73 prósent í Enex en REI 26,5 prósent. Ásta segir REI hafa verið tilbúið til að selja GGE sinn hlut í félaginu og leysa þannig þann hnút sem er til staðar, en að GGE hafi einungis verið til í að borga með hlutabréfum í sjálfu sér. Það hafi ekki komið til greina af hálfu REI að ganga að slíku tilboði. „Geysir Green gerði okkur á sínum tíma tilboð um að hlutur okkar yrði metinn inn í Geysi Green Energy og REI myndi þá eiga hlut í Geysi. Það kom ekki til greina. Það er hins vegar mjög vont fyrir REI að eiga um fjórðung vegna þess að þá hefur félagið í raun engin völd. Það er vont að vera eini minnihlutaeigandinn.“

Hjá Kaupþingi fengust þær upplýsingar að bankinn tjái sig ekki um orðróm af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka