Verð á hráolíu hækkaði í morgun í viðskiptum í Asíu og fór upp fyrir 116 dali tunnan. Skýrist hækkunin einkum af ótta fjárfesta um að fellibylurinn Gustav muni ganga nærri olíuvinnslu og borsvæðum í Mexíkóflóa.
Verð á hráolíu til afhendingar í október hækkaði um 1,04 dali tunnan og er nú 116,50 dalir í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York. Markaðurinn verður lokaður í dag þar sem almennur frídagur er í Bandaríkjunum.
Í Lundúnum í morgun hafði verð á Brent Norðursjávarolíu hækkað um 96 sent tunnan í 115,01 dal.