Breski auðjöfurinn Philip Green, sem nú er rætt um að muni
kaupa öll lán Baugs í bönkum og um leið eignast fjárfestingar Baugs í
Bretlandi, hefur aðallega hagnast af því að kaupa eignir á útsöluverði og nýta
til þess eigin sjóði. En hver er þessi Green eiginlega sem sjónir Íslendinga
beinast nú að í annað skiptið. Hið fyrra var þegar Green keypti breska
verslunarfyrirtækið Arcadia
án aðkomu Baugs líkt og til stóð á sínum tíma.
Green, sem hætti í skóla fimmtán ára gamall, steig sín fyrstu skref í
verslunarrekstri þegar hann fékk bankalán að fjárhæð 20 þúsund pund. Hann
eignaðist sína fyrstu milljón punda er hann keypti tískuvörukeðjuna Jean
Jeannie. Þá samdi hann við banka um hvenær lán vegna kaupanna yrðu endurgreidd,
endurskipulagði reksturinn og snéri tapi í hagnað. Seldi hann Jean Jeannie
síðan fyrir dágóðan skilding og hagnaðist umtalsvert á viðskiptunum.
Snillingur í að finna kauptækifæri
Green hefur yfirleitt gengið afar vel í viðskiptum sínum og er jafnvel lýst sem snillingi í að koma auga á og nýta sér tækifæri á verslunarsviðinu. Að minnsta kosti eitt dæmi er þó til um að honum hafi mistekist, en það er þegar hann var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri lágvöruverslunarinnar Amber Day. Árið 1992 sagði hann af sér þegar áætlanir um hagnað fyrirtækisins gengu ekki eftir, en fékk þó greidda 1,1 milljón punda fyrir störf sín.
Næstu árin keypti hann og tók yfir nokkur verslunarfyrirtæki og árið 1998 gerði Green tilboð í verslunarkeðjuna Sears. Fyrsta verðið sem Green nefndi við stjórn Sears varðandi yfirtöku á félaginu hljóðaði upp á 300 pens á hlut og var gert 16. desember árið 1998. Green hækkaði verðhugmynd sína í 340 pens á hlut sex dögum síðar og gerði formlegt tilboð upp á sömu fjárhæð 14. janúar 1999. Sjö dögum síðar hafði samkomulag tekist við stjórn Sears um verðið 359 pens á hlut og fyrirtækið var því selt á 549 milljónir punda. Á innan við ári skipti Green eignum fyrirtækisins upp, seldi þær og hagnaðist um 180 milljónir punda.
Helsta afrekið Bhs
Hingað til er helsta afrek hans á viðskiptasviðinu er hann keypti vöruhúsið Bhs á 200 milljónir punda árið 2000 en hann setti sjálfur um fjórðung þeirrar fjárhæðar í kaupin. Á innan við tveimur árum nam hagnaður Bhs svipaðri fjárhæð og fyrirtækið var keypt á.
Árið 2002 keypti Green Arcadia verslunarsamstæðuna sem meðal annars átti Top Shop, Dorothy Perkins and Burton, í nafni fjölskyldufyrirtækis síns, Taveta Investments, fyrir rúmlega 850 milljónir punda.
Arcadia markaði tímamót
Kaup Philips Green á Arcadia þóttu marka ákveðin tímamót í samskiptum Greens og bankamanna í City-fjármálahverfinu í London, en samskipti Greens og bankamanna höfðu þangað til ekki verið mjög hlýleg. En það var ekki að frumkvæði Greens að viðræður hófust við eigendur Arcadia um sölu á fyrirtækinu því íslenskir fjárfestar, að undirlagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, höfðu reynt í talsverðan tíma að eignast keðjuna.
Jón Ásgeir setti sig í samband við Green í byrjun árs 2002 um að taka þátt í kaupunum á Arcadia með Baugi en Green ákvað að taka ekki þátt í kaupunum. Í fyrsta lagi taldi hann að áherslur félagsins væru of dreifðar vegna þeirra fjölmörgu vörumerkja sem væru innan vébanda Arcadia, ólíkt Bhs þar sem áherslan væri á eitt vörumerki. Jafnframt væru viðræður búnar að taka allt of langan tíma og lítil von um að þær myndu skila árangri.
Í samtali við Morgunblaðið á þessum tíma sagði Philip Green að það hefði engu breytt þótt Jón Ásgeir hefði rætt við hann þremur til fjórum mánuðum fyrr; hann hefði einfaldlega ekki haft áhuga á Arcadia á þessum tíma.
Jón Ásgeir hafði síðan á ný samband við Green á ný í júní 2002 jafnframt því að þreifa fyrir sér meðal stjórnenda Arcadia um mögulega yfirtöku. Green samþykkti að skoða málið af fullri alvöru og ákvað síðan að slá til. Sammæltust þeir Jón Ásgeir og Green um að Green gerði tilboð í nafni Taveta Investments, fyrirtækis í eigu fjölskyldu Greens, í öll bréf í Arcadia fyrir utan þau 20,1% sem voru í eigu Baugs.
Tilboð Taveta naut stuðnings Baugs gegn því að Taveta myndi selja Baugi TopShop, TopMan, Miss Selfridges og Wallis. Til þess að fjármagna kaupin á vörumerkjunum fékk Baugur vilyrði frá Halifax Bank of Scotland, HBOS, um lán fyrir mismuninum á virði bréfa Baugs í Arcadia og því sem greiða átti fyrir vörumerkin.
Það er síðan um miðjan ágúst að Green leggur fram tilboð í Arcadia, en hann naut aðstoðar fjárfestingarbankans Merrill Lynch, upp á 365 pens á hlut, eða 690 milljónir punda alls. Þegar Green lagði fram tilboðið sagði hann að það samsvaraði í raun 382 pensum því gert væri ráð fyrir kostnaði við kauprétt starfsmanna, aðallega forstjóra fyrirtækisins, Stuart Rose. Kauprétturinn, sem alls var upp á 25-30 milljónir punda, varð virkur við yfirtöku á Arcadia.
Stuart Rose var hins vegar andvígur því að stjórn Arcadia tæki þessu tilboði þar sem hann taldi það of lágt og ekki ætti að taka tilboði sem væri undir 400 pensum á hlut. Stjórn Arcadia tók undir þetta með Rose og gaf út þá yfirlýsingu að tilboð undir 400 pensum væri óviðunandi.
Stuart Rose sagði í samtali við Morgunblaðið á þessum tíma að hann hafi staðið fast á þessari skoðun sinni og síðar hafi komið í ljós að hún hafi átt fullan rétt á sér. Hann vissi sem var, að Green væri þekktur fyrir að borga ekki of mikið fyrir hlutina, og þar væri Arcadia engin undantekning. Hann sagðist jafnframt telja að Baugur hafi á þessum tíma viljað greiða mun meira en Green fyrir bréfin í Arcadia en vegna fjárhagsstöðu sinnar var það Green sem stjórnaði ferðinni, ekki Baugur.
Næstu daga gerðust hlutirnir hratt eins og yfirleitt er þegar um yfirtökur er að ræða. Taveta Investments Limited lagði aðfaranótt fimmtudags, 29. ágúst, fram lokatillögu fyrir stjórn Arcadia Group um yfirtökutilboð í hlutabréf í Arcadia. Á sama tíma var tilkynning send til Kauphallarinnar í London um tilboðið. Tillagan hljóðaði upp á að Taveta greiddi hluthöfum Arcadia, öðrum en Baugi, 408 pens fyrir hvern hlut í félaginu. Samkvæmt því var Arcadia metið á 772 milljónir punda og virði hlutar Baugs í félaginu var því 155 milljónir punda.
Tillagan um 408 pensa kauptilboð var lögð fram í kjölfar fundar stjórnar Taveta með stjórn Arcadia en hún var háð nokkrum skilyrðum. Eitt var að stjórn Arcadia mælti með því við hluthafa félagsins að þeir tækju tilboði Taveta, en slíkt er í samræmi við breskar viðskiptavenjur. Annað skilyrði snéri að ráðstöfunum gagnvart Baugi sem fólu í sér yfirtöku hlutar Baugs og sölu ákveðinna eigna Arcadia til félagsins. Jafnframt var skilyrði sett um frágang fjámögnunar kauptilboðsins.
Það sem hins vegar fáir vissu, þar á meðal hvorki Philip Green né Stuart Rose, var að á sama tíma og lokahönd var lögð á tilboðið á skrifstofu Philips Green var framkvæmd húsleit í höfuðstöðvum Baugs Group hf. í Reykjavík af starfsmönnum efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Ástæðan fyrir húsleitinni voru ásakanir forsvarsmanns bandaríska heildsölufyrirtækisins Nordica Inc., Jóns Geralds Sullenbergers, um meint auðgunarbrot forstjóra og stjórnarformanns Baugs líkt og frægt er orðið.
Eitthvað sem ekki skiptir máli?
Þegar Reuters fréttastofan birti frétt um að lögreglan hefði gert húsleit í höfuðstöðvum Baugs á Íslandi hafði Stuart Rose strax samband við Philip Green. Í fyrstu hélt Green að Rose væri að ljúga að sér. Það gæti ekki verið rétt að á sama tíma og hann og Jón Ásgeir hefðu setið ásamt ráðgjöfum við að smíða tilboðið hafi Jón Ásgeir vitað af því að lögreglan væri að gera húsleit í fyrirtæki hans á Íslandi.
Á meðan þeir sátu við samningsgerðina hafi sími Jóns Ásgeirs hringt og hann hafi átt langt samtal við Ísland. Green segist hafa spurt hann að því hvort eitthvað væri að en Jón svaraði því neitandi, það væri bara smávandamál heima við - ekkert sem skipti máli.
Bæði Green og Rose gagnrýndu á þessum tíma Jón Ásgeir fyrir það að hafa látið þá frétta þetta í gegnum fjölmiðla og það hafi átt sinn þátt í að Green hafi ekki viljað hafa Baug með í kaupunum á Arcadia. Eða eins og Stuart Rose orðaði það í samtali við Morgunblaðið: „Það getur verið að þið á Íslandi stundið viðskipti með þessum hætti en svona gerum við ekki í Bretlandi."
Fáránlegt af Jóni Ásgeiri
Green segist hafa sagt við lögfræðing Baugs í London þegar hann sá fyrirsagnirnar í dagblöðum um húsleitina. „Er þetta eitthvað sem skiptir ekki máli? Það er þrennt sem skiptir máli á þessu stigi málsins. Númer eitt áreiðanleiki mannsins sem þú ert að eiga viðskipti með. Hvort sem glæpurinn var framinn eður ei. Númer tvö skaðinn var skeður. Að selja einhverjum vörumerki sem liggur undir jafnþungum ásökunum og raun ber vitni er ekki hægt sama þótt fjármagnið sé fyrir hendi. Í þriðja lagi er þetta ekki eitthvað sem hverfur og mun alltaf fylgja Baugi hér."
Green sagði eftir á að hyggja, að það hafi verið fáránlegt af Jóni Ásgeiri að halda að hann gæti tekið þátt í kaupunum eftir þetta. Segir hann jafnframt að ekki kæmi til greina að selja Baugi nein vörumerki út úr Arcadia líkt og rætt var um á sínum tíma.
Eftir að lögreglurannsóknin var gerð opinber gekk á ýmsu í samskiptum Íslendinganna og Philips Green. Í Bretlandi var litið á lögreglurannsóknir sem þessar alvarlegum augum og talið nánast öruggt að glæpur hafi verið framinn. Stuart Rose segir að þrátt fyrir að menn hafi rætt saman áfram þá var loku fyrir það skotið að Green gæti haft Baug áfram með í kaupunum þar sem aðilar á breskum fjármálamarkaði sem og breskir fjölmiðlar, sem oft hafa litið Green hornauga, hefðu aldrei sætt sig við að hann eignaðist stórfyrirtæki á við Arcadia með stuðningi Baugs. Skipti þar engu hvort forsvarsmenn Baugs væru saklausir eða sekir. Segir Rose að Green hafi ekki átt aðra kosti í stöðunni en að losa sig við Baug og kaupa þeirra hlut einnig. Sem hann og gerði.
Stjórn Arcadia tók sér frest til að íhuga tilboð Green um kaup á öllum hlutum í Arcadia fyrir utan hlut Baugs. Taldi stjórnin að ekki væri hægt að leggja mat á tilboðið fyrr en óvissu varðandi Baug hefði verið aflétt.
Miðvikudaginn 4. september 2002 eftir marga svefnlausa sólarhringa var þolinmæði Greens á þrotum. Hann barði í borðið og sagði við Jón Ásgeir og félaga: „Þið seljið mér bréfin í Arcadia. Að öðrum kosti verður ekkert af viðskiptunum."
Að sögn Greens var ekkert annað í stöðunni ef af kaupunum átti að verða. Hann vissi sem var að hvorki stjórn Arcadia né breski fjármálamarkaðurinn myndu samþykkja að Baugur væri með í kaupunum.
Í samtali við Morgunblaðið sagði Green að ekki væri hægt að segja til um hvort Baugur hefði getað átt hlut að samningnum þrátt fyrir að lögreglurannsóknin hefði ekki komið upp. Það var eitthvað sem aldrei reyndi á. Hann segir að það hafi einnig háð íslensku aðilunum hvað þeir þekktu lítið til á breskum verslunarmarkaði.
„Til þess að kaupa jafnstórt fyrirtæki og Arcadia er nauðsynlegt að hafa innlendan aðila með í ráðum. Þar sem Jón Ásgeir var ekki innanbúðarmaður í bresku samfélagi þá þurfti hann að treysta of mikið á ráðgjafa sem ekki kann góðri lukku að stýra. Því það er einu sinni þannig að þú þarft að segja lögfræðingum og fjármálasérfræðingum til. Segja hvað þú vilt í stað þess að þurfa að láta þá segja þér hvað eigi að gera líkt og var í tilviki Baugs í samningaviðræðunum um Arcadia, að sögn Greens.
Arðgreiðsla upp á 1,2 milljarða punda
Þremur árum síðar greiddi Arcadia Green út 1,2 milljarða punda í arðgreiðslu, sem er stærsta arðgreiðsla í sögu bresks viðskiptalífs. Í dag eiga fyrirtæki Greens yfir 2.500 verslanir í Bretlandi.
Fjör í fimmtugsafmæli
Þrátt fyrir að Green hafi aldrei lokið formlegri skólagöngu þá styrkir hann myndarlega nám í verslunarfræðum og hefur jafnan staðið þétt við bakið á fjölskyldu sinni þegar þess hefur þurft.
Hann, líkt og ýmsir auðmenn, hefur vakið athygli þegar afmælisfagnaðir eiga í hlut. Þegar Green varð fimmtugur árið 2002 vakti það mikla athygli í breskum fjölmiðlum er hann bauð til veislu á Kýpur þar sem Rod Stewart og Tom Jones voru meðal
þeirra sem skemmtu gestum. Veislan kostaði Green 5 milljónir punda á þeim tíma.
Konungur breskrar verslunar
Ef Green nær yfirráðum yfir eignir Baugs í Bretlandi telur Reuters fréttastofan að óhætt sé að krýna hann konung breskar verslunar. Green segir í samtali við Reuters að hann muni nýta eigið fé til þess að kaupa skuldir Baugs en þær eru taldar nema yfir einum milljarði punda.