Eftir Láru Ómarsdóttur
Seðlabanki Íslands tilkynnti fjármálafyrirtækjum í gær að hann hefði endurmetið verðmæti óvarinna verðbréfa sem útgefin voru af Glitni, Kaupþingi og Landsbanka. Bréfin sem voru metin á 300 milljarða króna eru nú aðeins metin á um 150 milljarða og duga því ekki lengur sem trygging fyrir skuldum fjármálafyrirtækjanna við Seðlabankann.
Fyrirtækin sem um ræðir eru: Sparisjóðabankinn (sem um skeið var kallaður Icebank), Askar Capital, Saga Capital, VBS, SPRON og Straumur.
Nú þurfa þau því að leggja fram frekari tryggingar eða borga mismuninn. Hafa fyrirtækin frest fram á miðvikudag til að ganga frá sínum málum við Seðlabankann. Verst er staðan hjá Sparisjóðabankanum, SPB, sem samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur lagt fram andvirði um það bil 150 milljarða króna í verðbréfum sem tryggingu fyrir lánum hjá Seðlabanka. Bankinn þarf því að koma með nýjar tryggingar að andvirði um 70 til 80 milljarða króna eða greiðaSeðlabankanum þá upphæð.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins getur SPB það ekki og freistast því til að semja við Seðlabankann eða ríkissjóð. Takist það ekki má gera ráð fyrir að bankinn fari í þrot.
„Við munum funda með fulltrúum seðlabankans og ríkisstjórnarinnar,“ segir Agnar Hansson, forstjóri SPB.
Ef fjármálafyrirtækin geta ekki orðið við óskum Seðlabankans kemur bankinn líklega til með að þurfa að afskrifa tugi ef ekki hundruð milljarða króna. „Við skulum vona að svo verði ekki,“ sagði Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri í samtali við Morgunblaðið í gær.