Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, segir að stjórnendum bankans hafi alltaf þótt furðuleg ráðstöfun að Davíð Oddsson var gerður að formanni bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Sigurður staðfesti í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 að honum og Davíð hafi lent illilega saman á fundi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í Washington á síðasta ári þegar hann var spurður að því í þættinum.
Þegar Björn Ingi Hrafnsson, umsjónarmaður Markaðarins, spurði Sigurð hvort rétt væri að Davíð hefði hótað að fella Kaupþing ef bankinn stæði fast við kröfur um að hlutabréf bankans yrðu skráð í evrum, sagðist Sigurður geta staðfest það.