Fjársvik vaxa að umfangi

Stein Bagger.
Stein Bagger.

Margt bendir til, að fjársvik forstjóra danska upplýsingatæknifyrirtækisins IT-Factory, hafi verið mun umfangsmeiri en áður var talið. Í gær var áætlað að forstjórinn hefði stungið af með hálfan milljarð danskra króna en nú er jafnvel talið að  upphæðin sé tvöfalt hærri.

IT-Factory var lýst gjaldþrota á sunnudag eftir að upp komst um svik Stein Bagger, forstjóra. Málið vekur að vonum gríðarlega athygli í Danmörku enda var IT-Factory þekkt og margverðlaunað fyrirtæki. Þá hefur gjaldþrotið áhrif á danskar fjármálastofnanir og tilkynnti Danske Bank í dag að hann muni væntanlega tapa um 350 milljónum danskra króna, jafnvirði 8,8 milljarða íslenskra króna. 

Svikin komust upp eftir að Bagger hvarf í Dubai í síðustu viku en hann var þar í viðskiptaferð ásamt eiginkonu sinni. Svo virðist, sem flótti forstjórans hafi ekki verið skipulagður heldur hafi hann ákveðið að láta sig hverfa eftir símafund, sem hann átti á hóteli í Dubai. Hans er nú leitað um allan heim.

Svo virðist sem Stein Bagger, sem er 41 árs, giftur og tveggja barna faðir, hafi byggt upp mikla svikamyllu innan IT-Factory. Raunar hefur einnig komið í ljós, að hann hefur logið um eigin menntun, þar á meðal MBA háskólagráðu, sem hann skreytti sig með. Viðskiptaháskólinn í Edinborg sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Bagger hafi verið þar við nám en aldrei lokið því. 

Nú hefur einnig komið upp úr kafinu, að Bagger var með félaga í Vítisenglum á launum undanfarið ár sem einskonar lífvörð og lögreglan er einnig sögð rannsaka grófa líkamsárás, á mann, sem tengdist Bagger.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK