Fjársvik vaxa að umfangi

Stein Bagger.
Stein Bagger.

Margt bend­ir til, að fjár­svik for­stjóra danska upp­lýs­inga­tæknifyr­ir­tæk­is­ins IT-Factory, hafi verið mun um­fangs­meiri en áður var talið. Í gær var áætlað að for­stjór­inn hefði stungið af með hálf­an millj­arð danskra króna en nú er jafn­vel talið að  upp­hæðin sé tvö­falt hærri.

IT-Factory var lýst gjaldþrota á sunnu­dag eft­ir að upp komst um svik Stein Bag­ger, for­stjóra. Málið vek­ur að von­um gríðarlega at­hygli í Dan­mörku enda var IT-Factory þekkt og marg­verðlaunað fyr­ir­tæki. Þá hef­ur gjaldþrotið áhrif á dansk­ar fjár­mála­stofn­an­ir og til­kynnti Danske Bank í dag að hann muni vænt­an­lega tapa um 350 millj­ón­um danskra króna, jafn­v­irði 8,8 millj­arða ís­lenskra króna. 

Svik­in komust upp eft­ir að Bag­ger hvarf í Dubai í síðustu viku en hann var þar í viðskipta­ferð ásamt eig­in­konu sinni. Svo virðist, sem flótti for­stjór­ans hafi ekki verið skipu­lagður held­ur hafi hann ákveðið að láta sig hverfa eft­ir síma­fund, sem hann átti á hót­eli í Dubai. Hans er nú leitað um all­an heim.

Svo virðist sem Stein Bag­ger, sem er 41 árs, gift­ur og tveggja barna faðir, hafi byggt upp mikla svika­myllu inn­an IT-Factory. Raun­ar hef­ur einnig komið í ljós, að hann hef­ur logið um eig­in mennt­un, þar á meðal MBA há­skóla­gráðu, sem hann skreytti sig með. Viðskipta­há­skól­inn í Ed­in­borg sendi í dag frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem seg­ir að Bag­ger hafi verið þar við nám en aldrei lokið því. 

Nú hef­ur einnig komið upp úr kaf­inu, að Bag­ger var með fé­laga í Vít­isengl­um á laun­um und­an­farið ár sem einskon­ar líf­vörð og lög­regl­an er einnig sögð rann­saka grófa lík­ams­árás, á mann, sem tengd­ist Bag­ger.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK