Enn hefur ekkert spurst til danska forstjórans Stein Bagger, sem lét sig hverfa í Dubai í síðustu viku með mörg hundruð milljónir danskra króna, sem hann hafði svikið út úr viðskiptavinum danska upplýsingatæknifélagsins IT-Factory. Hugsanlegt er talið að hann sé í Mið-Ameríku.
Jyllands-Posten segir í dag, að skjöl, sem fundist hafi á leyniskrifstofu Baggers í Gentofte, sýni að hann hafi opnað skrifstofu í Panama skömmu áður en hann hvarf. Þá hafi fundist upplýsingar um bankareikninga í Panama sem bendi til þess, að Bagger hafi stofnað þar fyrirtæki.
Mikið er fjallað í dönskum fjölmiðlum um hvarf Baggers og gjaldþrot IT-Factory í kjölfarið. Af nógu er að taka því Bagger virðist hafa byggt upp mikla svikamyllu í kringum fyrirtækið og tekist að blekkja nánustu samstarfsmenn og fjölskyldu sína.