Formaður stjórnar spænska seðlabankans segist svartsýnn á þróun efnahagskreppunnar í heiminum. Hann varar við því að heimurinn gæti staðið frammi fyrir algjöru fjáramálahruni, sem hafi ekki sést síðan í Kreppunni miklu.
„Það ríkir ekkert traust,“ sagði Miguel Angel Fernandez Ordonez í samtali við spænska dagblaðið El País.
„Millibankamarkaðurinn er óvirkur og þetta skapar vítahring. Neytendur eru ekki að versla, kaupsýslumenn eru ekki að ráða verkamenn, fjárfestar eru ekki að fjárfesta og bankar eru ekki að lána,“ segir hann.
„Það er nánast algjört frost sem enginn sleppur frá,“ segir hann og bætir við að viðsnúningur geti ekki orðið fyrr en búið verði að endurvekja traust. Bjartsýnustu menn spá því að staðan batni í lok næsta árs eða í byrjun ársins 2010.