Húsleit hjá Teymi

Frá skrifstofu Teymis á Suðurlandsbraut
Frá skrifstofu Teymis á Suðurlandsbraut mbl.is/Árni Sæberg

Samkeppniseftirlitið hefur hafið húsleit á starfstöð Teymis og dótturfélaganna Og fjarskipta ehf. og IP fjarskipta ehf. Umrædd rannsókn mun ekki hafa nein áhrif á daglega starfsemi þessara félaga, að því er segir í tilkynningu frá Teymi.

Samkvæmt upplýsingum frá Dóru Sif Tynes, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Teymis, er verið að rannsaka hvort fyrirtækið eða dótturfélög hafi brotið samkeppnislög. Segir hún að um hefðbundna leit sé að ræða og er verið að afrita tölvu- og pappírsgögn. Símafyrirtækið Tal er hluti dótturfélagsins IP fjarskipti en eins og greint hefur verið frá á mbl.is var forstjóri Tals, Hermann Jónasson, rekinn frá fyrirtækinu þann 30. desember sl.

Jóhann Óli Guðmundsson, fulltrúi Capital Plaza sem fer með 49% hlut í Tali, var mjög ósáttur við uppsögn Hermanns og sagði í samtali við mbl.is á gamlársdag að hann teldi uppsögn Hermanns ólögmæta og ekki í samræmi við samþykktir félagsins. Jóhann Óli segir að kippt hafi verið í spotta og fulltrúar Teymis kosið að gæta frekar hagsmuna Vodafone en hluthafa og viðskiptavina Tals. Málið hljóti að koma til frekari skoðunar samkeppnisyfirvalda.

Fulltrúar Teymis í stjórn Tals tilkynntu þann 30. desember að samningi sem hann hefur nýlega gert um aðgang að gsm-dreifikerfi Símans í stað kerfis Vodafone (Og fjarskipta), hefði verið rift. Hermanni mun hafa verið vísað af skrifstofu sinni og meinaður aðgangur að gögnum þar. Teymi sem jafnframt er eigandi símafélagsins Vodafone á 51% eignarhlut í Tali á móti Jóhanni Óla Guðmundssyni og Hermanni.

Vodafone í Skútuvogi
Vodafone í Skútuvogi Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK