Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á starfsemi Teymis og dótturfélaga er grundvölluð á upplýsingum og gögnum sem Samkeppniseftirlitið hefur aflað á síðustu vikum. Húsleitin í dag er hluti rannsóknarinnar á ætluðum brotum fyrirtækjanna á ákvörðun eftirlitsins um óskoraða samkeppni milli Tals og Vodafone.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að ekki hafi verið gerð húsleit hjá fleiri símafyrirtækjum en þessum en eins og áður sagði hefur Samkeppniseftirlitið viðað að sér upplýsingum undanfarnar vikur.
Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að Samkeppniseftirlitið hefur í dag framkvæmt húsleitir á skrifstofum Teymis hf., Vodafone - Og fjarskipta ehf. og Tals - IP-fjarskipta ehf. Til húsleitanna var aflað úrskurða frá Héraðsdómi Reykjavíkur.
„Húsleitirnar eru liður í rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðum brotum þessara fyrirtækja á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008. Í þeirri ákvörðun var mælt fyrir um skilyrði fyrir samruna Hive og Sko, sem nú starfa undir merkjum Tals. Þau skilyrði miðuðu að því að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals og að full og óskoruð samkeppni ríki á milli m.a. Tals og Vodafone, sem er í eigu Teymis hf. Jafnframt lítur rannsóknin að ætluðum brotum fyrirtækjanna á banni samkeppnislaga við samkeppnishamlandi samráði.
Rannsóknin er grundvölluð á upplýsingum og gögnum sem Samkeppniseftirlitið hefur aflað á síðustu vikum.
Samkeppniseftirlitið mun flýta rannsókn þessari eftir því sem kostur
er. Á þessu stigi gefur Samkeppniseftirlitið ekki frekari upplýsingar
um rannsóknina," að því er segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.