Samkvæmt heimildum mbl.is sendi Síminn kæru til Samkeppniseftirlitsins í gær vegna ummæla stjórnarformanns Teymis, Þórdísar Sigurðardóttur, í fjölmiðlum vegna samnings milli Tals og Vodafone.
Þórdís Sigurðardóttir, stjórnarformaður Tals, sagði í samtali við Morgunblaðið þann 3. janúar sl. að fyrrverandi forstjóra Tals hafi verið sagt upp vegna trúnaðarbrests. Hann hafi gert samning við Símann, án samráðs við stjórn Tals, þó svo að í gildi sé fimm ára samningur við Vodafone um þjónustu, þar sem meðal annars sé kveðið á um að fyrirtækið geti ekki samið við annað símafyrirtæki á meðan samningurinn sé í gildi.
Síminn lítur svo á að samningur sem fyrirtækið gerði í desember síðastliðnum við þáverandi forstjóra Tals, Hermann Jónsson, sé í gildi, að sögn Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Símans.
„Við teljum að riftun á samningnum standist ekki,“ segir Sævar. „En við viljum hins vegar tryggja að viðskiptavinir Tals verði ekki fyrir barðinu á þeim ágreiningi sem verið hefur í hluthafahópi Tals. Þess vegna lokuðum við ekki á viðskiptavini fyrirtækisins um áramótin, eins og við hefðum getað gert, en þá væru þeir í ákveðnum tilvikum utan gsm-sambands þar sem þjónustusvæði Vodafone nær til um 70-75% landsins,“að því er fram kom í samtali við Sævar við Morgunblaðið þann 3. janúar sl.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir að það sé ekki rétt hjá Sævari að þjónustusvæði Vodafone nái til 70-75% landsins. Hið rétta sé að það nái til um 99% landsins.