Stjórn Teymis segist í yfirlýsingu hafna því alfarið, að Vodafone og Tal, sem bæði eru í meirihlutaeigu Teymis, hafi átt með sér samráð um markaðsaðgerðir. Þvert á móti hafi félögin átt í harðri samkeppni eins og skoðun á markaðsaðgerðum og vöruframboði félaganna beri vitni um.
Fram kemur m.a. í yfirlýsingunni, að Samkeppniseftirlitið hafi grunað að Teymi, sem á 51% hlut í Tali, hafi ætlað að reka fyrirtækið í þrot með ólögmætum hætti í þeim tilgangi að takmarka samkeppni á markaði.
Yfirlýsing stjórnar Teymis er eftirfarandi:
Fulltrúar Samkeppniseftirlitsins gerðu í morgun húsleit á skrifstofu Teymis. Samkvæmt dómsúrskurði sem heimilaði húsleitina taldi Samkeppniseftirlitið grun leika á að:Stjórn Teymis vísar ofangreindum ásökunum á bug, en fagnar því að Samkeppniseftirlitið leiti af sér allan grun um viðskiptahætti þeirra félaga sem um ræðir. Fram hefur komið, að húsleitin er gerð að undirlagi Símans. Stjórn Teymis hvetur til þess, að rannsókninni verði hraðað og málið dragist ekki á langinn.
1. TEYMI LAGÐI AUKIÐ FÉ Í TAL TIL AÐ TRYGGJA FRAMTÍÐ FÉLAGSINS
Frá stofnun Tals árið 2008 hefur félagið vaxið mikið og viðskiptavinum fjölgað jafnt og þétt. Reksturinn hefur þó verið í járnum og í október sl. var fjárhagsstaða félagsins orðin mjög erfið. Til að tryggja framtíð félagsins lagði Teymi hf. aukið fé til rekstrarins og því eru þær ásakanir rangar, að Teymi hafi viljað reka Tal í gjaldþrot af einhverjum annarlegum hvötum.
2. ÞJÓNUSTUSAMNINGUR Í FULLU SAMRÆMI VIÐ SETT SKILYRÐI
Við stofnun félagsins var samið um, að Tal keypti þjónustu af Vodafone enda átti Tal ekki eigin fjarskiptakerfi. Gildistími samnings um endursölu á GSM þjónustu er fimm ár, enda kölluðu umrædd viðskipti á verulegar fjárfestingar af hálfu Vodafone. Þeir sérfræðingar sem Teymi leitaði til fyrir undirritun samningsins töldu ótvírætt, að samningurinn samræmist fyllilega þeim skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti samrunanum. Stjórn Teymis tekur undir þá skoðun, enda var málið kannað ítarlega áður en umræddur samningur var gerður. Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er félögunum heimilt að eiga með sér samstarf um fjarskipti og fjarskiptakerfi.
3. ÁSÖKUNUM UM SAMRÁÐ VÍSAÐ Á BUG
Stjórn Teymis hafnar því alfarið, að Vodafone og Tal hafi átt með sér samráð um markaðsaðgerðir. Þvert á móti hafa félögin átt í harðri samkeppni eins og skoðun á markaðsaðgerðum og vöruframboði félaganna ber vitni um.
HARMAR RANGFÆRSLUR
Stjórn Teymis harmar ítrekaðar rangfærslur fulltrúa minnihlutaeigenda í Tali, um meintar reglubreytingar á reikiþjónustu og meinta úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar þar um. Ákvæðum fjarskiptalaga um reiki hefur ekki verið breytt og áðurnefndar fullyrðingar eru því rangar. Póst- og fjarskiptastofnun hefur heldur ekki tekið neina afstöðu til þess, hvort Vodafone sé heimilt að veita Tali þjónustu á reikisvæðum Simans.
Starfsmenn og stjórn Teymis mun aðstoða Samkeppniseftirlitið með hverjum þeim hætti sem óskað verður eftir til að tryggja skjóta og góða afgreiðslu þessa máls.
F.h. stjórnar Teymis,
Þórdís J. Sigurðardóttir, formaður