Skilanefnd Landsbanka Íslands lagði í dag fram beiðni um greiðslustöðvun BG Holding ehf. fyrir enskan dómstól. BG Holding er dótturfélag Baugs Group hf. en meðal fjárfestinga félagsins eru matvöruverslanirnar Iceland Foods, verslunarmiðstöðvar House of Fraser og leikfangaverslanir Hamleys.
Í morgun óskaði stjórn Baugs eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að Baugi, BG Holding og fleiri félögum tengdum Baugi, verði veitt greiðslustöðvun hér á landi.
Skilanefnd Landsbanka Íslands er stærsti kröfuhafi BG Holding. Í tilkynningu segir að skilanefndin og Baugur hafi um nokkra hríð leitað leiða til lausnar þeim fjárhagsvanda sem steðji að BG Holding. Í þeim viðræðum hafi skilanefndin notið aðstoðar PricewaterhouseCoopers UK, og lögfræðistofunnar SJ Berwin UK sem skilanefndin réð til verksins.
Það hafi verið álit ráðgjafa skilanefndarinnar að hagsmunir enskra félaga í eigu BG Holding og kröfuhafa Landsbanka Íslands væru best tryggðir með því að fara þá leið að leggja fram beiðni um greiðslustöðvun BG Holding fyrir enskan dómstól.