Athafnamaðurinn Jón Ólafsson á eitt fjögurra tilboða í afþreyingarfyrirtækið Senu en tilboð voru opnuð í Senu í gær. Gerir Jón tilboðið í félagi við umboðsfyrirtækið William Morris Agency.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru tilboðsgjafarnir bíókóngurinn Árni Samúelsson, stofnandi SAM-bíóanna, Jón Diðrik Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Glitnis og fyrrverandi stjórnarmaður í REI, hugsanlega ásamt Bjarna Ármannssyni, fjárfesti og fyrrverandi forstjóra bankans, og Þóroddur Stefánsson, kenndur við Vídeóhöllina og Bónusvídeó, auk Jóns og William Morris Agency.
Sena keypti Skífuna af Árdegi í lok október á síðasta ári er Árdegi fór í greiðslustöðvun. Jón Ólafsson átti Skífuna um árabil.