Tveir stjórnarmenn sem tilnefndir voru í stjórn Tals af Samkeppniseftirlitinu, Hilmar Ragnarsson og Þórhallur Örn Guðlaugsson, hafa sagt sig úr stjórn Tals. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að þær ástæður sem þeir gefa fyrir úrsögn sinni úr stjórninni gefi tilefni til gruns um brot Teymis gagnvart Tali og samkeppnissjálfstæði þess.
Hilmar og Þórhallur Örn voru kjörnir í stjórn Tals á hluthafafundi þann 6. febrúar í stað fulltrúa Teymis. Að sögn Páls Gunnars er það til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu að grípa til frekari aðgerða til að verja samkeppnislegt sjálfstæði Tals og er niðurstöðu að vænta á næstu dögum.
Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun til bráðabirgða í byrjun febrúar um greiðslu dagsekta upp á þrjár milljónir króna vegna meintra brota Teymis á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að fulltrúar Teymis, þ.e. Þórdís J. Sigurðardóttir og Ólafur Þór Jóhannesson, skyldu víkja úr stjórn Tals eigi síðar en föstudaginn 30. janúar 2009. Jafnframt var lagt fyrir eigendur Tals að skipa óháða stjórnarmenn í stjórn félagsins í stað umræddra fulltrúa Teymis.
Að sögn Páls Gunnars hafði þessi ákvörðun eftirlitsins þau áhrif að stjórnarmenn Teymis fóru úr stjórninni. Hann segir engin ákvörðun hafi verið tekin um hvort dagsektum verði beitt á ný en að það verði skoðað í framhaldinu.
Samkeppniseftirlitið gerði í janúar húsleit í höfuðstöðvum fjarskiptafyrirtækjanna Teymis, Tals og Vodafone. Samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu var leitin liður í rannsókn á því hvort brotið hefði verið gegn skilyrðum sem sett voru fyrir sameiningu Hive og Sko, sem nú starfa undir merkjum Tals.
Skilyrðin miðuðu að því að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals og að full og óskoruð samkeppni ríkti á milli m.a. Tals og Vodafone, sem er í eigu Teymis. Þá miðar rannsóknin einnig að því að kanna hvort Tal og Vodafone hafi haft með sér samráð á markaði.
Í dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi grun um að Teymi hafi ætlað að reka Tal í þrot með ólöglegum hætti til að takmarka samkeppni á markaði. Auk þess taldi eftirlitið að grunur léki á því að lög hefðu verið brotin við gerð þjónustusamnings milli Vodafone og Tals sem gerður var í fyrra.