Erlendur Gíslason, skiptastjóri Baugs Group, auglýsir í Lögbirtingablaðinu í gær eftir kröfum í þrotabúið. Er gefinn fimm mánaða frestur til að lýsa kröfunum. Skrá yfir lýstar kröfur verður aðgengileg á skrifstofu Logos frá 8. september næstkomandi.
Í auglýsingunni segir: „Hér með er skorað á alla þá, sem telja til skulda eða annarra réttinda á hendur þrotabúinu eða eigna í umráðum þess, að lýsa kröfum sínum fyrir undirrituðum skiptastjóra, innan fimm mánaða frá fyrri birtingu innköllunar þessarar. Kröfulýsingar skulu sendar skiptastjóra að Efstaleiti 5, 103 Reykjavík.
Skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur og ráðstöfun á eignum og réttindum þrotabúsins, verður haldinn á skrifstofu skiptastjóra að Efstaleiti 5, Reykjavík, þann 15. september 2009, kl. 14.00.
Skrá yfir lýstar kröfur í viðkomandi þrotabú mun liggja frammi á skrifstofu undirritaðs skiptastjóra frá 8. september 2009.“