Hvar eru íslensku gulldrengirnir? Þannig er spurt á viðskiptavef danska blaðsins Berlingske Tidende í dag og síðan er fjallað um hvað drifið hafi á daga nokkurra nafnkunnustu Íslendinganna í viðskipalífinu á síðustu árum.
Blaðið segir, að íslenska viðskiptayfirstéttin hafi verið fyrirsagnaefni í nokkur ár vegna djarfra fjárfestinga. Nú sé þeim hins vegar kennt um fjármálahrunið á Íslandi, verið sé að vinda ofan af fjárfestingunum og ásakanir hafi komið fram um svindl.
Fjallað er síðan sérstaklega um þá Björgólf Thor Björgólfsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason, Sigurð Einarsson og Davíð Oddsson. Blaðið segir m.a. að Björgólfur sé nú eini íslenski milljarðamæringurinn í dollurum talið þrátt fyrir að hafa tapað gífurlegum fjármunum á íslenska hruninu og tengsl hans við Ísland séu orðin frekar lítil.
Jón Ásgeir er sagður hafa stofnað fyrirtækið Tecamol ásamt tveimur viðskiptafélögum sínum. Þeir ætli að fjárfesta í breskri smásölu en taka færri lán en Baugur. Fyrirtækið sé til húsa við Oxfordstræti. Í umfjöllun um Hannes Smárason segir blaðið að almennt sé nú litið á FL Group, sem Hannes stjórnaði lengi, sem stóra svikamyllu þar sem nokkrir fjárfestar skiptust á um að kaupa sömu fyrirtækin aftur og aftur og taka stöðugt meiri lán.
Um Sigurð Einarsson segir Berlingske, að hann standi nú í stappi við Fjármálaeftirlitið og krefjist þess að það rannsaki hvernig gögn hafi komist í hendur íslenskra blaðamanna. Um Davíð Oddsson segir blaðið, að hann hafi dregið sig í hlé og ætli að planta trjám og skrifa smásögur.