Fulltrúar VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) munu í kvöld gera tillögu um breytingar á skipan stjórnar lífeyrissjóðsins á aðalfundi sjóðsins á Grand Hóteli. Venjulega er stjórn lífeyrissjóðsins tilnefnd til þriggja ára í senn og hefði kjörtímabili núverandi stjórnar átt að ljúka á næsta ári.
Gunnar Páll Pálsson, fyrrverandi formaður VR, er stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
„Okkur finnst eðlilegt að gerðar séu breytingar á stjórn sjóðsins í kjölfar breytinganna sem urðu á stjórn VR núna í mars,“ segir Kristinn Örn Jóhannesson, formaður VR og sjóðfélagi í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Hann segir að stjórn LV þurfi að endurspegla breytta ásýnd VR.
Að sögn Kristins verður lögð fram breytingartillaga um skipan stjórnarinnar og býst hann ekki við öðru en að hún verði samþykkt. Hann segir aðrar breytingar ekki á dagskrá, ekki sé stefnt að því að leggja fram breytingartillögu á samþykktum sjóðsins. Aðspurður hvort tillaga um að sett verði launaþak á stjórnendur sjóðsins segir Kristinn að tillaga í þá veru sé ekki fullmótuð, en hún verði líklega lögð fyrir sjóðfélaga á fundinum í kvöld.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur auglýst stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins en Þorgeir Eyjólfsson lét af störfum framkvæmdastjóra að eigin ósk um miðjan maí.
Rekstur lífeyrissjóðsins hefur legið undir gagnrýni undanfarið en Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR og sjóðfélagi í LV, sagði fyrir helgi að hann óttaðist að staða sjóðsins væri mun verri en af væri látið. Hann gagnrýndi jafnframt að nákvæmt bókhald sjóðsins hefði ekki verið gert opinbert. Tap Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á innlendum hlutabréfum og gjaldeyrissamningum á síðasta ári var um 70 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi sjóðsins.