Samkeppniseftirlitsið hefur úrskurðað að Teymi og Og-fjarskipti hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og skilyrðum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins með samstilltum aðgerðum og samkomulagi við IP fjarskipti ehf. (Tal).
Samkvæmt ákvörðuninni greiðir Teymi 70 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna brotanna. Jafnframt er mælt fyrir um að Teymi selji frá sér eignarhlut sinn í Tali innan tiltekinna tímamarka. Á meðan á sölumeðferð stendur er mælt fyrir um aðgerðir til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals gagnvart Og-fjarskipti
Í úrskurðnum segir að aðgerðirnar hafi miðaði að því að draga úr samkeppnislegu sjálfstæði Tals og vinna gegn því að Tal keppti við Og fjarskipti. Einnig hafi verið brotið gegn lögum með tilteknum ákvæðum í samningi Tals við Og fjarskipti um aðgang að farsímaneti, dags. 11. apríl 2008 þar sem umrædd ákvæði hafi verið til þessi fallin að draga úr samkeppni á markaði.
Úrskurðurinn fer í heild sinni hér á eftir:
„Með ákvörðun í dag lýkur athugun Samkeppniseftirlitsins sem hófst með húsleit á starfstöðvum Teymis, Og-fjarskipta og Tals þann 7. janúar sl. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að Teymi og Og-fjarskipti hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og skilyrðum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 36/2008 með eftirfarandi aðgerðum á árinu 2008:
Samstilltum aðgerðum og samkomulagi við IP fjarskipti ehf. (Tal) sem miðaði að því að draga úr samkeppnislegu sjálfstæði Tals og vinna gegn því að Tal keppti við Og fjarskipti.
Með tilteknum ákvæðum í samningi Tals við Og fjarskipti um aðgang að farsímaneti, dags. 11. apríl 2008. Ákvæði þessi voru til þess fallin að draga úr samkeppni á markaði.Samkvæmt ákvörðuninni greiðir Teymi 70 m.kr. í stjórnvaldssekt vegna brotanna. Jafnframt er mælt fyrir um að Teymi selji frá sér eignarhlut sinn í Tali innan tiltekinna tímamarka. Á meðan á sölumeðferð stendur er mælt fyrir um aðgerðir til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals gagnvart Og-fjarskipti
Undir rekstri málsins snéru forsvarsmenn Teymis sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir viðræðum um sátt vegna málsins. Undirgengust Teymi og Og-fjarskipti sátt sem liggur tilgrundvallar fyrrgreindri ákvörðun. Við mat á sektarfjárhæð er m.a. horft til þess að umrædd fyrirtæki höfðu frumkvæði að sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið og hafa nú undanbragðalaust játað brot sín á samkeppnislögum. Einnig hefur verið fallist á að hlíta fyrirmælum sem til þess eru fallin að efla samkeppni. Hefur þetta auðveldað og stytt mjög rannsókn og málsmeðferð samkeppnisyfirvalda sem hefur jákvæð samkeppnisleg áhrif. Er horft til þessa samstarfsvilja við mat á sektum.
Í byrjun desember 2008 sneru fyrirsvarsmenn Tals sér til Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir því að veita upplýsingar um framangreind brot. Var í því sambandi vísað til reglna Samkeppniseftirlitsins nr. 890/2005 um atvik sem leiða til niðurfellingar sekta eða ákvarðana um að lækka sektir í málum er varða ólögmætt samráð fyrirtækja. Var Tal fyrsta fyrirtækið í máli þessu til þess að veita upplýsingar um umrædd brot og hefur veitt mikilsverða aðstoð við að upplýsa málið. Sökum þessa var Tal ekki gerð sekt í málinu.
Bakgrunnsupplýsingar:
Þann 13. júní 2008 tók Samkeppniseftirlitið ákvörðun í máli sem varðaði samruna fjarskiptafyrirtækjana Hive og Sko, sem nú starfa undir merkjum Tals (ákvörðun nr. 36/2008). Samruninn var heimilaður með skilyrðum. Þau skilyrði miðuðu að því að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals og að full og óskoruð samkeppni ríki á milli m.a. Tals og Og fjarskipta, sem er í eigu Teymis.
Samkeppniseftirlitið gerði húsleit á starfstöðvum Teymis, Og fjarskipta og Tals þann 7. janúar sl. Þann 26. janúar 2009 tók eftirlitið ákvörðun til bráðabirgða, nr. 1/2008, í því skyni að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals gagnvart Vodafone, á meðan á rannsókn stæði. Var mælt fyrir um breytingar á stjórnarskipan hjá Tali, auk þess sem tiltekin ákvæði í samningi Tals og Vodafone voru ógilt. Með ákvörðun nr. 8/2009, frá 27. febrúar sl., var að nýju mælt fyrir um aðgerðir til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals."