Hefur ekki verið kynnt tilefni athugunarinnar

Frá húsleit í gær
Frá húsleit í gær RÚV


Milestone hefur ekki verið kynnt hvert er tilefni athugunar sérstaks saksóknara þannig að ekki er kostur að koma á framfæri sértækum athugasemdum við hana á þessi stigi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Milestone. Þar kemur jafnframt fram að félagið harmi þau áhrif sem umræða um Sjóvá hefur haft á starfsmenn og viðskiptavini félagsins.

„Milestone fékk fyrst í gær staðfest að starfsemi Sjóvár væri til athugunar hjá embætti sérstaks saksóknara. Við húsleit veitti Milestone embættinu allar umbeðnar upplýsingar og átti samstarf við starfsmenn saksóknara við öflun gagna.

Félagið leggur áherslu á að allar upplýsingar um starfsemi og ávöxtunarleiðir Sjóvá liggja uppi á borðum. Starfsemin og ávöxtunarleiðir Sjóvá hafa verið undir ströngu eftirliti opinberra aðila. Ekkert ætti því að koma eftirlitsaðilum á óvart í þessum efnum. Ástæða er hins vegar til að árétta í kjölfar þeirrar umræðu sem verið hefur að það er beinlínis hlutverk fjármálafyrirtækisins Sjóvá að ávaxta vátryggingarskuld og eigið fé með ábyrgum hætti til að félagið geti staðið skil á sínum skuldbindingum.

Milestone hefur sem eigandi fjármálafyrirtækja lagt á það áherslu að dótturfélögin fari að einu og öllu eftir reglum sem gilda um starfsemi þeirra. Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á góð samskipti við eftirlitsaðila og að starfsemi félaganna sé gegnsæ. Milestone hefur um nokkurt skeið starfað undir eftirliti frá sænska fjármálaeftirlitinu sem eigandi að sænsku fjármálasamstæðunni Moderna Finance AB, móðurfélagi Sjóvá.

Undir hatti Moderna Finance störfuðu átta fjármálafyrirtæki sem hvert um sig var undir eftirliti í viðkomandi landi. Til að meta fjárhagslegan styrk móðurfélagsins Milestone var lagt mat á heildaráhættur innan samstæðunnar m.a. með tilliti til gjaldeyrisáhættu og viðskipta við tengda aðila. Hlutverk móðurfélagsins var að haga ávöxtunarstefnu dótturfélaga þannig að farið væri eftir reglum um fjárfestingarstarfsemi í hverju landi en á sama tíma væri áhætta móðurfélagsins metin. Þessari stefnu var framfylgt í gegnum stjórnarsetur í dótturfélögum.

Áréttað skal sérstaklega að í tilviki Sjóvá eru útbúin reglulega yfirlit yfir ávöxtunarleiðir félagsins á hverjum tíma. Þessi yfirlit eru lögum samkvæmt send Fjármálaeftirlitinu til skoðunar. Í yfirlitunum kemur m.a. fram flokkun ávöxtunarleiða eftir einstökum greinum þ.m.t. fasteignum. Rétt er að taka fram að í reglum sem gilda um ávöxtunarleiðir vátryggingafélaga er heimilað að allt að 40% af sjóðum félagsins sé fjárfest í fasteignum.  Ekki eru sett skilyrði um að allar fjárfestingar séu á Íslandi.

Eins og í ljós hefur komið felst áhættudreifing í að ávaxta sjóði í erlendum eignum samhliða íslenskum fjárfestingum. Í samskiptum við sænska eftirlitsaðila m.a. við stjórn Moderna Finance komu einatt fram þau sjónarmið að fjárfestingar Sjóvá í íslenskum eignum undanfarin tvö ár teldist til áhættufjárfestinga. Ávöxtunarleiðir Sjóvá og reyndar fjármálasamstæðunnar allrar endurspegla þessi sjónarmið eins og glöggt má sjá af því að hlutfall íslenskra eigna af heildareignum samstæðunnar minnkaði verulega síðustu tvö árin.

Milestone hefur ekki verið kynnt hvert er tilefni athugunar sérstaks saksóknara þannig að ekki er kostur að koma á framfæri sértækum athugasemdum við hana á þessi stigi. Félagið hefur lýst sig reiðubúið að aðstoða við könnunina eftir því sem kostur er. Félagið treystir því að vönduð könnun saksóknara á þessum málefnum muni leiða í ljós að farið hafi verið að lögum í starfsemi og fjárfestingum Sjóvá.

Milestone harmar þau áhrif sem umræða um Sjóvá hefur haft á starfsmenn og viðskiptavini félagsins," að því er segir í tilkynningu frá Milestone rétt undir miðnætti í gær.

Milestone
Milestone mbl.is/Heiðar Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK