Fjármálaeftirlitið (FME) hóf rannsókn sína á málefnum Sjóvár í apríl í fyrra þegar félagið skilaði ársreikningi sínum og fylgigögnum með honum til stofnunarinnar. Þar komu fram upplýsingar um fjárfestingar Sjóvár sem tilefni þótti til að skoða betur.
Rúnar Guðmundsson, sviðsstjóri vátryggingasviðs hjá FME, segir að í kjölfarið hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum frá Sjóvá. „Þegar við fengum skýrsluskilin vegna ársins 2007 í apríl í fyrra sáum við að þar var ýmislegt sem við þurftum að skoða betur. Við könnuðum síðan á hverju Sjóvá byggði sína upplýsingagjöf og reyndum að sannreyna hana eins og mögulegt er. Það varð tilefni til þess að við gripum til þess úrræðis að skipa sérstakan endurskoðanda til að fara yfir afmarkaðan þátt í starfsemi félagsins svo að við gætum fengið fyllri upplýsingar um það sem væri í raun að gerast. Hann skilaði síðan skýrslu í janúar sem styrkti okkur enn frekar í þeirri trú að við þyrftum að skoða ákveðna hluti. Það hafði síðan í för með sér að hinn 25. mars vísaði stjórn FME þessu máli til sérstaks saksóknara.“
Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, segir þetta ekki allskostar rétt. „Við buðumst til þess við FME að leysa úr þeim vandræðum sem voru á vátryggingamarkaði. Við hefðum alveg getað tekið við stofnum, en ég tel að það hafi ekki verið kannað hvort við gætum það.“
Hann segist ekki vera ánægður með að samkeppnisaðili VÍS sé í reynd orðinn ríkistryggingafélag. „Við erum auðvitað ekkert hressir með það að ríkið sé komið í samkeppnisrekstur. Það sem er alvarlegast núna er að við erum að upplifa það í útboði hjá opinberum aðila að Sjóvá bauð langt undir tjónakostnaði. Það er sú vonda mynd af samkeppnisstöðunni sem við sjáum.“