Eftir Þorbjörn Þórðarson
Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs Group, er að skoða hvort forsendur séu fyrir því að rifta kaupum Gaums, eignarhaldsfélags Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, á stórum skíðaskála í Courchevel í Frakklandi.
„Við erum að skoða hvort hægt sé að rifta sölusamningi [vegna skálans]. Það má finna að því, hann var ekki rétt verðlagður,“ segir Erlendur, en salan á skálanum frá Baugi til Gaums var hluti af „allsherjar uppgjöri“ milli Gaums og Baugs, að sögn Erlends.
Í lögum um gjaldþrotaskipti eru heimildir fyrir því að rifta gjafagerningum, t.d. kaupsamningum sem fólu í sér eiginlegar gjafir ef kaupverð endurspeglaði ekki raunvirði viðkomandi eignar eða ef sala átti sér stað sex til tólf mánuðum áður en viðkomandi þrotamaður fékk fyrst heimild til greiðslustöðvunar.
Í tölvupósti sem Morgunblaðið hefur undir höndum, sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi lögmanni sínum, Einari Þór Sverrissyni, hinn 18 nóvember 2008, er fjallað um skálann, en þar er Jón Ásgeir að kynna „game-planið varðandi skála“ fyrir lögmanninum. Þar lýsir Jón Ásgeir því hvernig hann ætli, í tveimur skrefum, að endurfjármagna skálann og selja hann.