Lán Kaupþings til félaga í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar námu 632,6 milljónum evra, eða 114,4 milljörðum króna á núverandi gengi, hinn 25. september á síðasta ári, að því er fram kemur í skýrslu um stórar áhættuskuldbindingar Kaupþings. Er þá miðað við félög undir Gaums-samstæðunni en ekki lán til annarra félaga sem tengd eru Jóni Ásgeiri, s.s. Mosaic Fashions og FL Group.
Meðal lána til félaga í eigu Jóns Ásgeirs er lán upp á 263,5 milljónir evra til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf. en það var stofnað til þess að kaupa 95,7% eignarhlut í Högum af Baugi Group í júlí 2008. 1998 ehf. er í eigu Gaums (82,3%), Eignarhaldsfélagsins ISP (8,9%) og Bague SA (8,8%). Gengi evru var 125,7 krónur hinn 1. júlí 2008. Sé miðað við gengið þá hefur kaupverðið á Högum verið 33,1 milljarður króna, en til tryggingar láninu var eignarhluturinn í Högum auk 35% hlutafjár í Baugi Group. Lánið til 1998 ehf. var síðan notað til þess að greiða niður skuldir Baugs Group við Kaupþing og Glitni, samtals upp á 30 milljarða króna.
Ekki er útilokað að kaupsamningur um sölu á Högum til 1998 ehf. sé riftanlegur á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti ef sýnt þykir að ekki hafi komið eðlilegt endurgjald fyrir. Samningar þess eðlis eru riftanlegir ef þeir voru gerðir sex til tólf mánuðum áður en þrotamaður leitaði eftir heimild til greiðslustöðvunar. Baugur Group fékk heimild til greiðslustöðvunar hinn 11. febrúar sl., rúmum sjö mánuðum eftir söluna á Högum. Ef kaupverð Haga var í samræmi við markaðsverð í júlí 2008 er krafa um riftun væntanlega haldlítil.