Hagar í gjörgæslu Kaupþings

Þriggja manna teymi sérfræðinga frá Nýja Kaupþingi starfar nú inni í Högum með það fyrir augum að vernda hagsmuni bankans og leggja mat á verðmæti eigna félagsins, samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins. Bankanum er þetta heimilt því hann er með veð í 95,7% hlut í Högum.

Um er að ræða sérfræðinga bankans á sviði útlána og fyrirtækjaráðgjafar. Þau félög sem mynda rekstur Haga eru m.a. Bónus, Hagkaup, 10-11, Útilíf og tískuverslanir eins og Zara, Debenhams, Topshop, Coast, Oasis o.fl.

Bónus og Hagkaup að veði

Hagar var móðurfélag innlendrar starfsemi Baugs en félagið var skilið frá rekstri Baugs í júlí á síðasta ári þegar eignarhaldsfélagið 1998 ehf., sem er dótturfélag Gaums og í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, keypti 95,7% í Högum af Baugi. Kaupin voru fjármögnuð með 30 milljarða króna láni frá Kaupþingi gegn veði í öllum eignarhlut félagsins í Högum. Þetta lán er með einum gjalddaga á árinu 2010. Ef 1998 ehf. getur ekki greitt lánið getur Nýja Kaupþing gengið að veðinu og tekið yfir þau fyrirtæki sem áður mynduðu innlenda starfsemi Baugs. Bankinn er sem stendur að meta til hvaða aðgerða eigi að grípa ef 1998 ehf. getur ekki staðið í skilum, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, kannast ekki við þetta. Hann segir að ástæða þess að sérfræðingar Kaupþings séu að fara yfir bókhaldið sé vegna svokallaðs virðisrýrnunarprófs.

„Undanfarin ár hefur Capacent séð um þetta en að þessu sinni er það fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings. Þetta er gert að beiðni endurskoðenda okkar, KPMG. Við leituðum tilboða og tilboð fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings reyndist hagstæðast,“ segir Finnur.

Vill gefa lántakanda svigrúm

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Nýja Kaupþing ekki gengið að Högum og tekið félagið yfir þar sem bankinn vilji gefa 1998 ehf. svigrúm til að mæta gjalddögum lána.

Raunverulegt verðmæti Haga þurfi jafnframt að liggja fyrir áður, en það kann að vera mun hærra en lánið frá bankanum. Einnig þurfi að tímasetja slíka aðgerð vel.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka