Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, veltir því fyrir sér í Bréfi frá útgefanda, í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, hvað hafi orðið um ástralska auðjöfurinn, Steve Cosser, sem ætlaði sér að kaupa Morgunblaðið á sínum tíma ásamt fleiri eignum. Óskar fer jafnframt yfir kaupin á Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og mbl.is fyrr á árinu.
Vísar Óskar til þeirrar umræðu sem hefur birst í ákveðnum fjölmiðlum um að afskrifaðar hafi verið milljarða skuldir fyrir núverandi eigendur, jafnvel hefur mátt skilja að kaupendunum hafi verið gefnir þessir milljarðar persónulega, skrifar Óskar.
„Nær væri nú að þeir sem hafa haft þennan einlæga áhuga á Árvakri velti því fyrir sér hvernig því víki við að ástralski „auðjöfurinn“ skuli horfinn af íslensku yfirborði. Hann var sá eini sem bauð í Árvakur á móti núverandi eigendum í lokakaflanum.
Hann hugðist kaupa hér fasteignir ríkis og sveitarfélaga, tónlistarhús, orkufyrirtæki og svo eitt dagblað fyrst hann var kominn á annað borð. Upplýsti svo að íbúðin hans í London dygði fyrir svona ellefu Moggum og hafði í hótunum um að elta þá uppi sem höfðu látið í ljós þá skoðun að eitthvað kynni nú að vera bogið við þetta allt saman.
Sannleikurinn er sá að það var ekki auðvelt verk að fá
fjárfesta til að setja fé í endurreisn Morgunblaðsins enda
erfiðir tímar og fyrirsjáanlegt að þungur róður væri
framundan," skrifar Óskar Magnússon, meðal annars í Bréfi frá útgefanda sem birt er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.