Lánastefna Glitnis svipuð og Kaupþings

Friðrik Tryggvason

Lánastefna Glitnis var ekki ósvipuð þeirri og stunduð var hjá Kaupþingi, segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, í samtali við Bloomberg fréttastofuna. Eitt ár er í dag frá því að tilkynnt var um að ríkið myndi eignast 75% hlut í Glitni.

Kemur fram í grein Bloomberg að ótryggar lánveitingar til tengdra aðila hafi gert kröfuhöfum erfiðara fyrir. Lánveitingar til fyrirtækja og einstaklinga sem höfðu úrslitaáhrif á fjárhagslega heilsu viðkomandi.

„Mörg þeirra fyrirtækja sem Glitnir á háar kröfur á voru tengd eignarhaldi bankans og stjórn hans," segir Árni í viðtali við Bloomberg.

Nefnir Árni fyrirtæki eins og Milestone, Baug, FL Group og fasteignafélagið Landic Properties. Eins og fram hefur komið var Milestone í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona en hin tengjast öll Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fjölskyldu.

„Lán til þeirra eru ekki meirihluti útlána bankans en tölurnar eru mjög háar," segir Árni. Hann segir að það sé ekki bara um að ræða lán til íslenskra félaga tengdum eigendum Glitnis á þeim tíma heldur einnig lán til erlendra fjárfestingafélaga sem mörg hver voru í eigu Íslendinga.

„Reynsla okkar er sú í mörgum tilvikum að ekki sé mikið virði í þessum fyrirtækjum og líkurnar á endurheimtum krafnanna eru takmarkaðar," segir Árni.

Á morgun mun koma í ljós hvort að skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, taki þann kost að eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka. Þar með yrði hlutur íslenska ríkisins 5% og stór hluti eiginfjárframlags þess gengi til baka. Nýti kröfuhafar sér ekki þennan kost mun íslenska ríkið áfram verða eigandi bankans. Greiðsla vegna yfirfærðra eigna verður þá í formi skuldabréfs sem Íslandsbanki gefur út.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka