Rap á rekstri grænlenska sjávarútvegsfyrirtækisins Royal Greenland nam 196 milljónum danskra króna, jafnvirði nærri 4,9 milljarða íslenskra króna, á síðasta rekstrarári félagsins. Árið á undan var 78 milljóna danskra króna tap á rekstrinum.
Royal Greenland er langstærsta fyrirtækið á Grænlandi. Hjá því starfa rúmlega 2000 manns, þar af 855 á Grænlandi. Grænlenska landsstjórnin þurfti fyrr á þessu ári að hlaupa undir bagga með fyrirtækinu og leggja því til 500 milljóna danskra króna neyðarlán.
Alls seldi Royal Greenland 145.841 tonn af sjávarafurðum á árinu sem er 15% samdráttur frá fyrra ári. Fyrirtækið segir, að dregið hafi úr eftirspurn vegna fjármálakreppunnar og einnig hafi gengi mikilvægra gjaldmiðla, þar á meðal norsku og sænsku krónunnar og breska pundsins, lækkað. Þá hafi hrávöruverð verið hátt á fyrri hluta ársins.
Þá segir fyrirtækið að misheppnaðar fjárfestingar fortíðarinnar hafi enn áhrif á reksturinn. Þannig hafi fjárfesting í norskum rækjuiðnaði verið afskrifuð en fyrirtækið sitji enn uppi með lán vegna hennar.