Flutningur á helstu eignum Milestone ehf, félags Wernersbræðranna Karls og Steingríms, til sænska félagsins Moderna Finance AB er til skoðunar hjá skiptastjóra Milestone.
Flutningurinn bar innanhúsheitið „Project Supergood“ og var töluvert flókinn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er flækjan öll til skoðunar hjá skiptastjóra til að athuga hvort eignir Milestone hafi rýrnað við flutninginn eða hvort aðili utan Milestone samstæðunnar hafi hagnast á honum.
Sjóvá Almennar hf., 82 prósenta hlutur í Öskum Capital og L&H eignarhaldsfélag voru færð yfir í Moderna Finance með eftirfarandi hætti: Félögin voru færð frá Milestone ehf. til Þáttar Eignarhaldsfélags, sem var í 100% eigu Milestone. Úr Þætti voru þau færð í Racon Holding AB I, sem var í 100% eigu Þáttar. Þaðan voru þau flutt í Racon Holding AB II, sem var í 100% eigu Racon Holding AB I. Svo voru þau flutt í Moderna Finance AB, sem var í 100% eigu Racon Holding AB II.
Hin fluttu félög voru því alltaf innan Milestone samstæðunnar og er því ekki að sjá að Milestone ehf. hafi orðið fyrir tjóni. Hafa gerningarnir hins vegar verið kannaðir af skiptastjóra og er það gert til að fá fullvissu um að eignatilfærslan hafi í raun orðið með þeim hætti sem lýst er að ofan. Reynist sú raunin að enginn utan samstæðunnar hafi hagnast á kostnað félagsins eða kröfuhafa þess er væntanlega ekki grundvöllur til riftunar.
Þá er til skoðunar gjörningur milli Þáttar eignarhaldsfélags (sem var í 100% eigu Milestone) og Þáttar International ehf. og SJ-Fasteigna ehf. Þáttur International var í 48% eigu Þáttar ehf. en Milestone samstæðan átti einnig fleiri hluti í félaginu í gegnum önnur fyrirtæki.