Á kröfuhafafundi Straums Burðaráss sem haldin var í gær voru meðal annars kynntar niðurstöður rannsóknar PricewaterhouseCoopers á viðskiptum Straums og hvort um einhverja riftanlega gjörninga er að ræða. Öll viðskipti Björgólfsfeðga við bankann voru skoðuð sérstaklega og ekki hafi komið fram neinir samningar sem ástæða sé til að rifta. Hins vegar hafi viðskipti þeim tengdum farið yfir áhættumörk.
Þetta hefur fengist staðfest frá slitastjórn Straums en ekki er búið að fara gaumgæfilega yfir skýrslu PwC og slitastjórnin því ekki búin að taka afstöðu til allra þátta sem þar koma fram.
PwC telur hins vegar að viðskipti tengd Björgólfi Thor og/eða Björgólfi Guðmundssyni hafi farið yfir mörk um stórar áhættuskuldbindingar. Á fundinum kom fram að slitastjórn bankans telur þetta umdeilanlega niðurstöðu. Jafnvel þó að farið hafi verið yfir þau mörk þýði það ekki að rifta eigi gjörningi.
Næsti kröfuhafafundur Straums verður haldinn í júlí og verður væntanlega greidd atkvæði um nauðsamninga en ljóst sé að forgangskröfur greiðast að fullu og væntanlega nást 47% upp í aðrar kröfur. Það er því líklegt að hægt verði að ljúka slitum fjárfestingabankans í haust og hann fari í hendur kröfuhafa, fyrstur íslensku bankanna.