Auður I fagfjárfestasjóður slf. hefur keypt allt hlutafé IP-fjarskipta ehf. (Tal), en seljendur félagsins eru, Teymi hf., NBI hf., Hermann Jónasson og Fjallaskarð ehf. Virðing hf. hafði milligöngu um viðskiptin fyrir hönd Auðar I fagfjárfestasjóðs. Félagið var boðið til sölu með auglýsingu sem birtist í fjölmiðlum þann 17. maí síðastliðinn og var öllum fjárfestum sem uppfylltu tiltekin hæfisskilyrði gefinn kostur á að taka þátt í söluferlinu.
Tindar verðbréf hf. önnuðust söluferli félagsins fyrir hönd seljenda og nutu ráðgjafar LOGOS lögmannsþjónustu við söluferlið.
Kaupverð er trúnaðarmál á milli kaupanda og seljenda og mun kaupandi taka við stjórn félagsins á komandi vikum, samkvæmt fréttatilkynningu.
Í frétt Morgunblaðsins frá síðasta hausti kemur fram að Landsbankinn (NBI) fari með 82 prósenta eignarhlut í Tali eftir að hafa tekið yfir félagið Fjallaskarð (áður Capital Plaza ehf.) sem var í eigu Jóhanns Óla Guðmundssonar, en það félag fór með tæplega 32 prósenta hlut í Tali. Þá á bankinn meirihluta í Teymi sem á 51 prósents hlut í Tali.
Teymi skuldbatt sig til þess að selja 51 prósents eignarhlut sinn í Tali með sátt sem það gerði við Samkeppniseftirlitið í júlí í fyrra vegna samkeppnisbrota sem fyrirtækið varð uppvíst að sem meirihlutaeigandi í Tali.