Breska ferðaskrifstofan Thomas Cook tapaði 2,6 milljónum punda, 475 milljónum króna á síðasta rekstrarári er lauk þann 30. september sl. Er slæm afkoma félagsins einkum rakin til lítillar eftirspurnar meðal Breta og eldgossins í Eyjafjallajökli sem lamaði allt flug um Bretland í marga daga í apríl og maí.
Rekstrarárið á undan nam hagnaður Thomas Cook 7 milljónum punda. Í tilkynningu er haft eftir forstjóra félagsins Manny Fontenla-Novoa að afkoman hafi ekki komið stjórnendum á óvart enda hafi verið vitað strax í upphafi rekstrarársins að efnahagshorfur væru afar ótraustar. Því hafi verið gripið strax til ráðstafana. Telur hann að yfirstandandi rekstrarár verði mun betra og bókunarstaðan fyrir veturinn góð. Eins sé útlitið gott fyrir sumarið.
Tekjur Thomas Cook drógust saman um 4% og námu 8,89 milljörðum punda en mun færri Bretar fóru í vetrarferðalag síðasta vetur en áður og eins dró úr áhuga fólks á að ferðast vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.