Lán til félagsins Hunslow S.A. og til Sigurðar Bollasonar voru meðal þeirra skuldbindinga sem fluttar voru frá Landsbankanum í Lúxemborg til Landsbanka Íslands. Kemur þetta fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en í tilkynningu frá embætti sérstaks saksóknara segir að húsleitir, sem fóru fram í dag, tengist m.a. lánum til þessara aðila.
Í skýrslunni segir að viðskiptavinir Landsbankans hafi falist eftir því að taka lán frá bankanum í gegnum Lúxemborg, þar sem litið væri á að bankaleynd væri sterkari þar en á Íslandi. Gekkst móðurfélagið, Landsbanki Íslands, í sjálskuldarábyrgð fyrir þessum lánum frá útibúinu í Lúxemborg og má því í reynd líta svo á að Landsbanki Íslands hafi veitt lánin.
Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði við skýrsluhöfunda að stór lán hefðu til margra ára verið afgreidd með þessum hætti, en hann segir að bankar í Lúxemborg máttu vera með ótakmarkaða áhættu á móðurfélagið, sem var öfugt við þær reglur sem voru til dæmis í gildi í Bretlandi.
Í aðdragandum að falli bankanna óskaði Landsbankinn í Lúxemborg eftir því að stórar áhættuskuldbindingar með ábyrgð móðurfélagsins yrðu fluttar að fullu til Íslands og voru lánin samanlagt virði 784 milljóna evra, eða um 120 milljarða króna á núvirði. Lán til Hunslow nam 13 milljónum evra til Sigurðar Bollasonar 33,8 milljónum evra og lán til Pro-Invest nam 40,8 milljónum evra.