Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, kom fyrir þingnefnd í dag þar sem hann var spurður spjörunum úr um stefnu bankans. Lýsti Bernanke áhyggjum sínum af atvinnuleysi í Bandaríkjunum, sem hann taldi enn vera of mikið. Sagði hann bankann einnig standa við áform sín um 600 milljarða dollara innspýtingu í hagkerfi landsins til að halda stýrivöxtunum niðri.
Taldi seðlabankastjórinn að nokkur ár myndu líða þar til að atvinnuleysistölur hefðu náð einhverju jafnvægi. Fyrst yrði að koma til aukin atvinnusköpun. Minntu þingnefndarmenn hann á að farið væri að bera á áhyggjum af aukinni verðbólgu. Bernanke sló á þær áhyggjur og taldi verðbólgu áfram vera um 1%.
Þá sagði Bernanke að stjórnendur bankans gætu lítið gert við hækkandi hráefnisverði á heimsmarkaði, þar sem áhrifavaldar væru allt frá óveðri í Rússlandi til aukinnar eftirspurnar eftir eldsneyti í Kína og Brasilíu.