Taldi hagnaðarvon í kaupunum

Magnús Ármann.
Magnús Ármann.

Magnús Ármann, sem keypti rúmlega 4% hlut í Landsbankanum skömmu fyrir fall bankans, segist hafa metið það svo, að umtalsverð hagnaðarvon gæti verið í því að kaupa hlutabréf í Landsbankanum enda var verð á bankanum í sögulegu lágmarki. 

Þetta kemur fram í grein, sem Magnús hefur sent fjölmiðlum þar sem einnig kemur fram að embætti sérstaks saksóknara hefur hætt rannsókn á þessum viðskiptum.

Magnús segir að starfsmenn Landsbankans hafi haft frumkvæði að því í lok september 2008 að bjóða Ímon að kaupa rúmlega 4%  hlut í Landsbankanum á sögulega lágu markaðsgengi, fyrir rúmlega 5 milljarða króna.

Ímon, félagi Magnúsar, var boðið 100% lán frá bankanum með veði í bréfunum sjálfum og aukaveði í 8% hlut Magnúsar í Byr sparisjóði, sem þá var metinn á um 4,5 milljarða króna. Veðhlutfallið var metið af Landsbankanum um 85%. Byr hluturinn var reyndar veðsettur fyrir að hluta til, en Ímon var með jákvætt eigið fé.         

„Ég samþykkti viðskiptin eftir stutta umhugsun. Ég gerði mér grein fyrir að áhættan var mikil enda hafði íslenska ríkið nýverið boðist til að kaupa 75% hlut í Glitni og mikill titringur var í fjármálakerfinu. Við þessar aðstæður mat ég það svo að umtalsverð hagnaðarvon gæti verið í því að kaupa hlutabréf í Landsbankanum enda var verð á bankanum í sögulegu lágmarki.

Ég veðjaði í raun og veru á að Landsbankinn myndi standa af sér storminn og jafnvel gott betur, því framundan væri hagræðing í íslenska bankakerfinu og Landsbankinn væri vel í stakk búinn til að leiða slíka hagræðingu og eflast, frekar en hitt," segir Magnús.

Honum var boðið nokkrum dögum síðar, að gera sambærileg viðskipti með minni hlut. Aftur sló hann til en af þeim viðskiptum varð þó ekki því bankinn féll áður en gengið var frá þeim.

„Ég tapaði því þessu stóra „veðmáli” og ákvörðun mín reyndist heimskuleg – ekki síst miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir síðar.  En ég var ekki þátttakandi í neinu plotti um sýndarviðskipti eða markaðsmisnotkun. Mér voru boðin hlutabréf á góðum kjörum og ég tók áhættuna. Ég vissi aldrei hvaðan bréfin komu og ég gerði mér ekki grein fyrir að staða bankans var orðin grafalvarleg á þessum tímapunkti, enda var það ekki í samræmi við þær upplýsingar sem ég hafði fengið," segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK