Þrír starfsmenn í leyfi

mbl.is/Ómar

Ákveðið hefur verið, að þrír starfsmenn vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar fari í tímabundið leyfi á meðan rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og Samkeppniseftirlitsins stendur yfir á meintu samráði á byggingarvörumarkaði.

Húsleitir fóru fram í húsnæði byggingavöruverslananna BYKO og Húsasmiðjunnar í síðustu viku og 19 manns handteknir og yfirheyrðir í kjölfarið. Í þessari viku voru síðan 17 manns handteknir og yfirheyrðir vegna málsins, allt stjórnendur eða starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar. 

Í tilkynningu frá stjórn fyrirtækisins, sem Elín Þórðardóttir, stjórnarformaður skrifar undir, segir að stjórnin líti málið mjög alvarlegum augum. Hafi sérfræðingar í samkeppnisrétti  verið ráðnir til að taka út alla verkferla fyrirtækisins varðandi verðkannanir og tilboðsgerð og sé sú vinna þegar hafin.

Einnig hafi Húsasmiðjan sent Samkeppniseftirlitinu erindi þar sem fyrirtækið býður fram alla þá aðstoð sem það getur veitt við rannsókn málsins og heitir fullu samstarfi við rannsóknina. Loks hafi verið ákveðið að þrír starfsmenn vörustýringarsviðs fari í tímabundið leyfi. Stjórnin segist leggja áherslu á að umræddir starfsmenn eru saklausir uns sekt þeirra hafi verið sönnuð. 

„Stjórn Húsasmiðjunnar telur nauðsynlegt að grípa til fyrrgreindra ráðstafana en bíður niðurstöðu rannsóknar sem enn er á frumstigi. Komi nýjar upplýsingar fram meðan á rannsókn málsins stendur mun stjórnin bregðast við þeim á viðeigandi hátt," segir í tilkynningunni.

Verið er að rannsaka meint ólögmætt samráð fyrirtækjanna á markaði með svokallaða grófvöru, það er steinull, gifsplötur, spónaplötur og timbur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK