Lars Christiansen og greiningardeild Danske Bank, sem hann veitir forstöðu, voru harðlega gagnrýnd árin 2006 og 2007. Bæði háskólamenn og sérfræðingar bankanna mótmæltu niðurstöðu Danske Bank harðlega.
Í mars 2006 benti Danske Bank á að verðbólga hefði á síðustu árum verið yfir markmiði bankans. Jafnframt hefði hagvöxtur verið mjög mikill og atvinnuleysi farið vel niður fyrir 2%. Skýrsluhöfundar Danske Bank bentu á að þessi miklu umsvif mætti rekja til sláandi mikillar skuldaaukningarinnar, sem ætti sér fáa líka.
Greiningardeildir til varnar
Íslensku bankarnir sendu flestir frá sér yfirlýsingar vegna skýrslu Danske Bank í mars 2006. Benti Landsbankinn þannig á að efnahagsreikningur bankans stæðist álagspróf Fjármálaeftirlitsins með glæsibrag og að eiginfjárstaða væri sterk. KB Banki sendi út ámóta yfirlýsingu. Í frétt Blaðsins um skýrsluna 22.mars 2006 var haft eftir ónafngreindum sérfræðingum að allt væri í himnalagi í íslensku efnahagslífi, en áhrif neikvæðrar umræðu um rekstur þeirra gætu engu að síður haft áhrif á lánskjör þeirra.
Í frétt DV um skýrslu Danske Bank sagði meðal annars: „Alls minnkaði virði hlutabréfa bankanna um 40 milljarða króna í töluverðum viðskiptum og er þetta í annað sinn á skömmum tíma sem danskar greiningardeildar valda hruni í íslensku kauphöllinni. Sagt er frá því í sömu frétt að greiningardeild KB banka segi skýrslu Danske bank gefa ranga mynd. Meðal annars falli dönsku sérfræðingarnir í þá gryfju að bera skuldastöðu landsins saman við verga landsframleiðslu. Í frétt Morgunblaðsins var sagt frá því að snörp veiking krónunnar, 2,25% á einum degi, mætti rekja til dönsku skýrslunnar.
Ásgeir Jónsson, þá forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, sagði í samtali við Viðskiptablaðið 22.mars 2006 að skýrsla Danske Bank væri „morandi í rangfærslum“ og „villtum fantasíum.“ Lýsti Ásgeir furðu sinni á því að banki sem vildi láta taka sig alvarlega skyldi gefa svona út. Skýrslan stæðist engar gæðakröfur. „Auðvitað hefur íslenska hagkerfið ofhitnað, það sér hver maður, en að halda því fram að lendingin verði þetta hörð er algjörlega fráleitt,“ var haft eftir Ásgeir í Viðskiptablaðinu.
Edda Rós Karlsdóttir, þá forstöðumaður greiningar Landsbankans, sagði í sama tölublaði Viðskiptablaðsins að spá Danske Bank um 5-10% samdrátt á næstu árum „væri algerlega út úr kortinu.“ Sagði hún að Danirnir áttuðu sig ekki á samsetningu íslenska hagkerfisins. Bætti Edda Rós við að á óvart kæmi hversu stórar fullyrðingar væri að finna í skýrslu Danske Bank, „miðað við hve greiningin væri grunn.“
Jón Bjarki Bentsson, þá starfsmaður greiningardeildar Glitnis, sagði í Viðskiptablaðinu að sá grunur læddist jafnvel að honum að Danske Bank væri beinlínis að reyna að setja hlutina upp með neikvæðum hætti. Til þess að spá Danske Bank ætti að rætast þyrfti að koma til ófyrirsérð áfall af versta tagi.
Háskólamenn furðu lostnir
Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að yfirlýsingar Danske Bank væru stórkarlalegar: „Ég held að grunnvandinn sé nú kannski sá að þessi umsvif íslenskra fyrirtækja og banka sérstaklega er eitthvað sem nágrannar okkar eru ekki vanir að og þekkja ekki til og þess vegna eru þeir afskaplega tortryggnir.“ Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, benti á í samtali við Fréttablaðið að Danske Bank virðast ekki hafa tekið eftir því að matsfyrirtæki hafi þá nýverið staðfest lánshæfismat sitt fyrir Ísland með stöðugum horfum. „Eins hafa Moody's og Fitch nýlega staðfest háar einkunnir sínar fyrir íslensku bankana.“
Danske Bank hélt gagnrýni sinni á íslensku bankanna til streitu, og haustið 2007 varaði bankinn enn og aftur við íslensku hruni og beindi spjótum sínum helst að íslensku krónunni. Af því tilefni sagði Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor, að hann teldi ólíklegt að erlend krónubréfaútgáfa eða skuldsettar yfirtöku myndu einhvern tímann valda falli á íslensku krónunni. Heldur væri að óttast vaxtalækkanir Seðlabankans.
Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, sem í dag heita Samtök fjármálafyrirtækja, sendu frá sér tilkynningu í mars 2006 vegna skýrslu Danske Bank, þar sem Danir voru sagðir misskilja íslenska hagkerfið.
Stjórnmála- og embættismenn létu sitt ekki eftir liggja. Svavar Gestsson, þá sendiherra í Kaupmannahöfn, sagði að Dönum líkaði ekki almennt neikvæð umræða um Ísland. „Það er auðvitað óvenjulegt að sendiherra grípi til varna eins og ég hef gert, en það er líka óvenju harkalega vegið að Íslandi í sumum þessum skrifum. Það sýnir líklega að dönskum fyrirtækjum finnst að sér þrengt og að íslenskum fyrirtækjum sé að takast ætlunarverk sitt að sækja fram á dönskum markaði,“ sagði Svavar í samtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins. En sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn sendi frá sér sérstaka fréttatilkynningu vegna skýrslu Danske Bank, þar sem sterk staða íslensku bankanna var áréttuð.
Valgerður Sverrisdóttir, þá iðnaðarráðherra, sagði að sjálfsmynd Dana gagnvart Íslendingum væri farin að rispast. Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri, sagði að Seðlabanki Íslands væri undrandi á framsetningu danska bankans. Hins vegar brynni mest á bönkunum sjálfum að svara fullyrðingum Danske Bank, þó svo að Seðlabanki Íslands myndi koma sínum sjónarmiðum varðandi íslenskt efnahagsumhverfi almennt, á framfæri við danska kollega sína. Halldór Ásgrímsson sagði að skýrsla Danske Bank væri mjög villandi. Fjármálaráðuneytið gagnrýndi síðan framsetningu danska bankans í sérstöku fréttabréfi.