Teris tilkynnti hópuppsögn til Vinnumálastofunnar í gær, en fyrirtækið hefur sagt upp 18 starsfmönnum. Teris sérhæfir sig í upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Sæmundur Sæmundsson, forstjóri Teris, segir að frá bankahruni hafi fyrirtækið orðið að draga saman seglin.
Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2008 sem fyrirtækið tilkynnir um hópuppsögn. Nú starfa um 80 starfsmenn hjá Teris, en þegar mest lét voru þeir rúmlega 180 í lok árs 2007.
„Í þessu tilviki munar mestu um það þegar Landsbankinn yfir tók SpKef sparisjóð í Keflavík í mars. Þá misstum við annan stærsta viðskiptavininn okkar. Það vegur langþyngst í þessari aðgerð núna hjá okkur,“ segir Sæmundur. Þetta hafi verið mikil blóðtaka.
Síðast tilkynnti fyrirtækið um hópuppsögn í apríl 2009 þegar Spron og Sparisjóður Mýrasýslu lögðu upp laupana. Þá var 35 starfsmönnum sagt upp.
Aðspurður segir hann að uppsagnirnar eigi við störf á öllum sviðum innan fyrirtækisins.