Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir það hafa verið þung skref að taka að segja upp 57 starfsmönnum en þetta hafi verið lokahnykkur á ferli sem hófst fyrir ári með það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði. Frekari uppsagnir séu ekki fyrirhugaðar.
Höskuldur segir að nú hafi orðið kaflaskil í starfsemi bankans. Að mestu sé búið að vinna að úrlausn mála hjá um 1.000 fyrirtækjum og farið sé að sjá fyrir endann á málum einstaklinga. Einnig sé efnahagsbatinn í þjóðfélaginu hægur, lítil eftirspurn eftir nýjum lánum og fjárfesting í lágmarki.
„Það er einnig ljóst að rekstrarkostnaður hefur verið of hár, almennt séð í bankakerfinu, og við erum að bregðast við því," segir Höskuldur og bendir á að Arion banki hafi lokað 15 útibúum á síðustu tveimur árum og með uppsögnunum nú hafi starfsmönnum bankans fækkað um nærri 100 talsins. Útibú Arion banka í dag eru núna 24 og starfsmenn tæplega 900.