Fiskey á Hjalteyri á í verulegum rekstrarerfiðleikum en verið er að vinna að því að fá nýtt hlutafé og það skýrist betur í lok vikunnar hvort það tekst, segir Arnar Freyr Jónsson, framkvæmdastjóri Fiskeyjar, í samtali við Vikudag.
Félagið hefur átt við fjárhagsvanda að stríða sökum framleiðslubrests á lúðuseiðum undanfarin misseri. Þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir hefur ekki tekist að finna út orsök framleiðslubrestsins.
Arnar segir að lítil seiðaframleiðsla undanfarin ár hafi haft slæm áhrif á rekstur félagsins. Hátt seiðaverð og lækkun rekstrarkostnaðar hefur þó gert það að verkum að lítið hefur vantað upp á að tekjur félagsins stæðu undir rekstrarkostnaði. Íslandsbanki hefur veitt félaginu það fé sem upp á hefur vantað í formi skammtímaláns. Eldisstöð félagsins í Þorlákshöfn var seld á síðastliðnu ári fyrir tæpar 120 milljónir króna og fór sú upphæð til niðurgreiðslu langtímalána hjá Íslandsbanka. Á árinu 2010 voru seld rúm 180 þúsund seiði. Tekjur félagsins voru rúmar 103 milljónir króna og rekstrargjöld rúmar 106 milljónir króna.
Allt lausafé félagsins er uppurið og Íslandsbanki hefur lýst því yfir að ekki verði lánað meira til félagsins. Það er því ljóst að rekstur þess er kominn í þrot takist ekki að fjármagna hann með nýju hlutafé á næstu vikum.
Félagið var stofnað árið 1987 og hefur framleitt rúmlega 4,5 milljónir lúðuseiða frá upphafi. Aðeins lítill hluti þeirra hefur farið í framleiðslu hér á landi en þau hafa verið flutt til Kanada, Skotlands, Kína, Svíþjóðar, Færeyja og Noregs.