Penninn hafnar því alfarið að hann sé í „mjúkum faðmi“ bankans í yfirlýsingu sem var send frá fyrirtækinu í dag en þar segir að hún sé send þar sem ekki verði hjá því komist að svara þeim aðdróttunum og rangfærslum í garð Pennans sem haldið hefur verið fram í fjölmiðlum undanfarna daga.
Þar segir að rekstur Pennans verið jákvæður frá upphafi og engir peningar frá Arion banka farið í rekstur félagsins.
„Hins vegar yfirtók Penninn langstærstan hluta skulda þrotabúsins við birgja og þjónustuaðila og lagði Arion banki til nauðsynlegt stofnfé til nýs félags. Stjórnendum Pennnans var mjög umhugað um að gera upp skuldir félagsins við birgja og helstu samstarfsaðila þar sem miklir hagsmunir voru í húfi fyrir alla. Það er fjarri sanni að Penninn hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá Arion banka. Hlutafjáraukning sem gerð var í september fólst í því að lánum var breytt í hlutafé. Ekkert nýtt fé kom inn í rekstur Pennans.“
Penninn segir óásættanlegt að þrjú hundruð starfsmenn fyrirtækisins sitji undir ásökunum um að „stunda óheiðarlega viðskiptahætti og óvönduð vinnubrögð.“ Fyrirtækið hafnar því jafnframt að hafa stundað undirboð á markaði og reynt að ná til sín birgjum keppninauta.
Þá segir: „Penninn hafnar því alfarið að vera í „mjúkum faðmi bankans“. Stjórnendur fyrirtækisins hafa staðið frammi fyrir mjög erfiðum ákvörðunum við endurskipulagningu þess. Ákvarðanir sem því miður hafa meðal annars leitt til óhjákvæmlegra uppsagna starfsfólks, minnkunar starfshlutfalls og lækkunar launa.“
Að síðustu: „Það er von okkar hjá Pennanum að þessum tilhæfulausu aðdróttunum og rangfærslum fari að linna og starfsfólk okkar þurfi ekki lengur að sitja undir þessum óréttmætu ásökunum“
Yfirlýsingu Pennans í heild, má lesa í meðfylgjandi viðhengi.