Móðurfélög bandarísku flugfélaganna American Airlines og American Eagle eru að óska eftir greiðslustöðvun í samræmi við þarlend lög um gjaldþrotavernd.
AMR Corp., móðurfélag American Airlines, og systurfélagið, AMR Eagle Holding Corp., móðurfélag American Eagle, hafa lagt fram ósk um greiðslustöðvun og segja að endurskipulagningin, sem fari fram í því skjóli, tryggi hagsmuni fyrirtækjanna og hluthafa þeirra.
American Airlines er þriðja stærsta flugfélag Bandaríkjanna. Félagið tilkynnti jafnframt í dag, að Gerard Arpey, forstjóri, hafi látið af störfum. Við því starfi tekur Thomas Horton, núverandi stjórnarformaður.
American var eina stóra bandaríska flugfélagið sem fór ekki í greiðslustöðvun í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin árið 2001. Félagið tapaði 162 milljónum dala á þriðja fjórðungi þessa árs og hefur verið tap á rekstri félagsins í 14 af síðustu 16 ársfjórðungum.
Íslenska fjárfestingarfélagið FL Group keypti árið 2006 tæplega 6% hlut í AMR Corp og jók eignahlut sinn upp í tæplega 9% árið 2007. Félagið seldi hlutabréfin síðan í lok ársins en gengi þeirra hafði þá lækkað umtalsvert á því ári.