Hagnaður Marels á fjórða ársfjórðungi síðasta árs gæti numið 13,7 milljónum evra borið saman við 4,3 milljónir evra á sama tíma árið 2010, að því er fram kemur í afkomuspá IFS Greiningu.
Útlitið fyrir árið 2012 er sömuleiðis gott og hefur pantanabók fyrirtækisins aldrei verið stærri eða 204 milljónir evra. Þrátt fyrir að IFS Greining spái því að pantanabókin haldi áfram að stækka þá mun sá vöxtur verða hægari heldur en síðustu misseri.
IFS Greining reiknar með því að sölutekjur Marels muni aukast um 6,2% á fjórða ársfjórðungi. Fyrir árið í heild munu sölutekjur fyrirtækisins nema 662,3 milljónum evra, sem er tæplega 14% aukning frá árinu 2010. Hagnaður Marels fyrir skatta á síðasta ári mun nema tæplega 50 milljónum evra, sem er ríflega 125% aukning frá því árið á undan, þegar hagnaður félagsins nam aðeins 11,1 milljónum evra.