Umfang rekstrar Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hefur aukist mikið á undanförnum árum, bæði með fleiri verslunum, sem og fjölbreyttara vöruframboði og eins vöruþróun. Að sögn Ástu Dísar Óladóttur, framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar, er mikið lagt upp úr því að vera með fjölbreytt vöruúrval fyrir farþega, sem og að hafa á boðstólum vörur sem ekki fást á innanlandsmarkaði, íslenskar vörur sem og vörur sem jafnvel fást ekki í öðrum flugstöðvum.
„Gott dæmi um þetta eru Victoria's Secret-vörurnar sem eingöngu eru í Fríhöfninni. Það sem er sérstakt við þær vörur er að þær fást heldur ekki í hefðbundnum Victoria's Secret-verslunum í Bandaríkjunum sem dæmi, þetta eru sérvörur fyrir flugstöðvar,“ segir Ásta Dís sem tók við starfi framkvæmdastjóra 2010.
Farþegaaukningin á Keflavíkurflugvelli síðasta ári var um 18% en veltan í Fríhöfninni jókst um tæp 20% á milli áranna 2010 og 2011. „Vöxturinn byggist meðal annars á því að við náum til fleiri skiptifarþega sem aldrei fara inn í landið heldur stoppa bara í flugstöðinni, sem og að Fríhöfnin er í auknum mæli að færa verslunina inn í landið. Að því leyti er Fríhöfnin gríðarlega mikilvæg fyrirþjóðarbúið í heild þar sem hún skilar umtalsverðum gjaldeyri inn í landið, meðal annars frá farþegum sem í raun „koma aldrei til Íslands“. Við heyrum einnig fleiri dæmi þess að fólk gerir verðkönnun þegar það er í útlöndum og kemst að því að vörurnar sem það vantar eru ódýrari í Fríhöfninni og bíður því með að kaupa þær þar til við komuna til landsins. Við höfum því háleit markmið fyrir árið 2012,“ sagði Ásta Dís.
Nú er talað um að Flugstöðin sé að springa vegna aukinnar umferðar - verðið þið vör við slíkt hjá ykkur?
„Flugstöðin gæti eflaust tekið á móti fleiri farþegum ef ekki væri fyrir þessa álagstíma sem myndast. Vegna leiðakerfa flugfélaganna fara flestar vélar í loftið á svipuðum tíma, snemma á morgnana, í hádeginu og seinnipartinn, en þess á milli er frekar rólegt ef svo má segja. Ef flugumferðin dreifðist meira væri þetta minna mál, en verslanir okkar eru það stórar að þær anna vel þeirri eftirspurn sem nú er og með því öfluga starfsfólki sem þarna starfar náum við að veita þeim farþegum sem til okkar koma góða þjónustu.“
Hvað hafa orðið miklar breytingar á verslunum í Fríhöfninni undanfarið og eru frekari breytingar framundan?
„Við rekum í raun sex verslanir í flugstöðinni; brottfararverslun, komuverslun, þrjár verslanir á Schengen-svæðinu og Dutyfree Fashion. Það hafa orðið miklar breytingar á verslunum okkar á Schengen-svæðinu þar sem við kynnum Ísland og íslenskar vörur. Eins breyttum við Dutyfree Fashion-versluninni í fyrra. Útliti verslunarinnar var breytt og fjöldinn allur af íslenskum hönnuðum kom inn með vörur sínar. Hinn 29. febrúar síðastliðinn opnuðum við fyrstu Victoria's Secret-verslunina á Íslandi og ásýnd brottfararverslunarinnar breyttist mikið við það. Það er skemmtilegt að segja frá því að við það verkefni tókst okkur að fá stjórnendur fyrirtækisins úti til að nota ÍAV-þjónustu til að vinna að breytingunum og smíða innréttingarnar. Hver veit hvort það mun hafa einhver áhrif fyrir þá, en verkið var mjög vel unnið og erlendu aðilarnir ánægðir með árangurinn. Vonandi leiðir þetta eitthvað gott af sér. Annars er alltaf eitthvað nýtt að gerast hjá okkur og við erum alltaf á tánum.“