Rannsókn felld niður

Sjóvá.
Sjóvá. mbl.is

Embætti ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara hafa fellt niður rannsókn máls á hendur fyrirtæki í eigu Heiðars Guðjónssonar, fjárfestis, sem hafin var af Seðlabanka Íslands. Undirbýr hann nú lögsókn á hendur Seðlabankanum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Heiðari.

Þar kemur fram að rannsóknin hafi leitt til þess að hann var útilokaður frá viðskiptum með hlutafé í vátryggingafélaginu Sjóvá Almennum tryggingum hf. 

Yfirlýsing Heiðars Guðjónssonar

„Að gefnu tilefni tel ég rétt að greina frá því opinberlega, að bæði embætti ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara hafa fellt niður rannsókn máls á hendur fyrirtæki í minni eigu, sem hafin var af Seðlabanka Íslands, og leiddi til þess að ég var útilokaður frá viðskiptum með hlutafé í vátryggingafélaginu Sjóvá Almennum tryggingum hf.  Þar með er komin tvöföld staðfesting á tilefnislausri rannsókn Seðlabankans gegn fyrirtæki mínu sem kom í veg fyrir að ég fengi að leiða hóp fjárfesta til þess að kaupa Sjóvá.

Forsagan er sú að í október 2010 tilkynnti Seðlabankinn fyrirtæki í minni eigu að skuldabréfaviðskipti þess væru til rannsóknar hjá bankanum. Rannsóknin kom mér í opna skjöldu enda skuldabréfaviðskiptin í því skyni að fjármagna viðskipti við Seðlabankann, en á þessum tíma hafði fyrirtæki mitt ásamt öðrum einmitt náð samkomulagi um kaup á Sjóvá af einkahlutafélagi bankans.

Seðlabankastjóri, sem var hvorttveggja í senn æðsti yfirmaður gjaldeyriseftirlitsins og stjórnarformaður einkahlutafélags bankans, tilkynnti mér það persónulega og að viðstöddum mínum lögmönnum, að hann gæti ekki átt við mig eða mitt fyrirtæki viðskipti um hluti í vátryggingafélaginu vegna rannsóknarinnar.

Seðlabankanum og seðlabankastjóra var á þessum tíma ítrekað bent á, að hvorki rannsóknin né málsmeðferðin fengi staðist nokkra skoðun. Var andmælum í engu sinnt. Nú hefur verið staðfest að við höfðum á réttu að standa um þessa óskiljanlegu atburðarás. Sérstök ástæða er til að nefna í því sambandi, að niðurstaða ríkissaksóknara byggir m.a. á því, sem við höfum haldið fram, að þær reglur sem Seðlabankinn setti og beitti í málinu hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá.

Mér og fyrirtæki mínu hefur verið valdið verulegu fjárhagslegu tjóni, hvorttveggja í tengslum við viðskiptin um Sjóvá, en jafnframt vegna beins og óbeins kostnaðar er leitt hefur af rannsókn málsins. Hef ég t.d. vegna þessa haft réttarstöðu sakbornings hjá lögregluyfirvöldum, algjörlega að ósekju, sem nú loksins hefur verið að fullu aflétt, en sú staða hefur hamlað þátttöku minni á fjármálamarkaði hérlendis sem erlendis.

Um leið og ég harma þessa málsmeðferð og vinnubrögð Seðlabankans, fagna ég niðurstöðum sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara. Það er afar mikilvægt að opinberir aðilar misnoti ekki vald sitt og taki ábyrgð á sínum störfum og undirbúa lögmenn mínir því málshöfðun á hendur Seðlabanka Íslands til heimtu skaðabóta vegna þess tjóns sem af aðgerðum bankans hefur leitt,“ segir í yfirlýsingu frá Heiðari Guðjónssyni.

Heiðar Guðjónsson
Heiðar Guðjónsson mbl.is/hag
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK