Sinfóníuhljómsveitin orðin fullorðins

Margrét Ragnarsdóttir, markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir að á rösklega einu …
Margrét Ragnarsdóttir, markaðsstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir að á rösklega einu ári hafi orðið yfir 60% aukning í sölu áskriftarmiða. Styrmir Kári

Mikill uppgangur hefur verið hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hljómsveitin flutti í Hörpu. Á rösklega einu ári hefur orðið yfir 60% aukning í sölu áskriftarmiða. „En aukningin hófst löngu fyrir flutningana. Strax um áramótin 2008-9 stóðum við frammi fyrir því að þurfa, áður en langt um liði, að fylla mun stærri sal en áður. Við lögðumst því í mikla herferð sem borið hefur góðan árangur. Frá þeim tíma til dagsins í dag nemur fjölgun áskrifenda um 165%,“ segir Margrét Ragnarsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Herferðir síðustu ára hafa m.a. leitast við að undistrika sérstöðu og gæði hljómsveitarinnar, en árangurinn segir Margrét að megi líka skrifast á nýjar áherslur í tónleikahaldi, breyttan anda í samfélaginu og síðast en ekki síst það aðdráttarafl sem nýtt og glæsilegt tónlistarhús er. „Það fer ekki milli mála að umgjörðin sem Harpa skapar eykur á upplifunina af að koma á tónleika. Ekki bara er salurinn miklu betri með tilliti til hljómburðar heldur eru hér veitingastaðir og verslanir. Aðstaðan var svolítið óhefluð áður, á gamla staðnum, en núna erum við alveg „fullorðins“.“

Tækifæri til að kaupa ódýrari miða

Í tónleikadagskránni segir Margrét svo að úrvalið hafi breikkað. „Stefnan var tekin á að gera efnisvalið fjölbreyttara og hafa m.a. verið haldnir kvikmyndatónleikar, barnatónleikar, sérstakir fjölskyldutónleikar og svo vel sóttir tónleikar með listamönnum á borð við Pál Óskar og Hjaltalín. Þessar nýju áherslur hafa virkað til að laða að nýtt fólk. Frá því að við fluttum í Hörpu hefur hljómsveitin leikið fyrir hátt í hundrað þúsund áheyrendur.“

Hvað varðar tíðarandann segir Margrét að þegar tók að kreppa að og blása í móti virðist sem landinn hafi lært að meta betur gildi þess að Ísland býr að fyrsta flokks sinfóníuhljómsveit. „Það er líka ekki dýr menningarleg og skemmtileg kvöldstund að fara á sinfóníutónleika. Með þessum stóra nýja sal fjölgar verðsvæðum og því bjóðast líka tækifæri til að kaupa ódýrari miða en áður. Við erum eflaust að gera hljómsveitina aðgengilegri fyrir marga með því að geta boðið upp á kvöldstund á sinfóníutónleikum á jafnvel undir 2.000 kr.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK